Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Unicef í samstarf við Múmín

Unicef á Íslandi kynnti í dag nýja áskriftarleið Unicef og Múmín. Um þessar mundir fer fram Múmínálfadagur Unicef í Kringlunni þar sem ungum sem öldnum gefst tækifæri á að fá mynd af sér í múmínumhverfi en á svæðinu er einnig föndurhorn þar sem gestir geta útbúið sína eigin múmínkórónu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Unicef á Íslandi. Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri Unicef á Íslandi, segir að vel hafi verið sótt á múmínálfadaginn og ekki allir komist að sem vildu í föndurgerðina. Hún ítrekar að einnig verði boðið upp á föndurhorn á morgun í Kringlunni býðst fólki því annað tækifæri til að útbúa múmínkórónu.

Skapa tólf mánaða upplifun

Nýja áskriftarleiðin er unnin í samstarfi við Moomin Character Ltd. í Finnlandi en Unicef á Íslandi fékk hönnunarteymið Þykjó og Ævar Þór Benediktsson, sendiherra Unicef á Íslandi með sér í lið til að skapa upplifun fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Í upplifuninni felst að fólk sem skráir sig í áskriftina fær mánaðarlega sendan glaðning frá Múmín og Unicef og verður um leið heimsforeldri Unicef.

Glaðningarnir geta ýmist verið múmínleikhús, karakterar, sögur og annað sem er lýst sem „frábærri skjálausri skemmtun fyrir skapandi fjölskyldur“.

Múmínkóróna prýðir höfuð þessa ungu drengja.

Múmínkóróna prýðir höfuð þessa ungu drengja. mbl.is/Óttar

„Í fyrstu sendingunni fær fólk viðarleikhús í anda múmínálfanna. Fólk fær það til sín og fær að setja það saman. Það fær einnig fjóra karaktera úr múmínsögunum, söguspjald og verkefnaspjald sem tengist því,“ segir Ingibjörg sem bætir við að eftir það fái fólk sent heim til sín nýja karaktera og aðrar viðbætur við leikhúsið á mánaðarfresti í tólf mánuði og að því loknu verði þau hefðbundnir heimsforeldrar Unicef. 

Fjölmargir skráð sig til leiks

Ingibjörg segir að henni og öðrum hjá Unicef hafi nú þegar borist mjög jákvæð viðbrögð við verkefninu og að fjöldi fólks sé nú þegar búin að skrá sig í áskriftina.

Hún bætir við að margir sem eru nú þegar heimsforeldrar hafi fært sig yfir í múmínáskriftina. Hún tekur jafnframt fram að hún hafi dáðst að sköpunarkrafti barnanna sem bjuggu til múmínkórónur í Kringlunni í dag.

mbl.is/Óttar

mbl.is