Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Leikarinn lendir ítrekað í veseni á flugvöllum vegna nafns síns

Bandaríski leikarinn Taylor Lautner segist stöðugt lenda í vandræðum á flugvöllum vegna nafns síns, og þess að hann er giftur Taylor Lautner.

Jú þú last rétt, hjónakornin bera sama nafn og það er vel hægt að skilja að það valdi ruglingi þegar Taylor Lautner og Taylor Lautner ganga í gegnum vegabréfaeftirlit saman.

Eiginkonan sem er hjúkrunarfræðingur bar nafnið Taylor Dorne, en tók eftirnafn Taylor Lautner þegar hún giftist Twilight stjörnunni árið 2022. Í viðtali við Good Guys hlaðvarpið opnaði Taylor Lautner sig um þetta flugvallavesen, það er leikarinn. 

Ruglingurinn á sér einnig stað á fleiri stöðum, eins og til dæmis þegar hjónakornin panta vörur frá Amazon.

„Nú þegar við berum  opinberlega sama nafnið þá leiða pakkarnir til ákveðinna vandamála. Við verðum að finna eitthvað út úr því, því þegar ég er að kaupa fyrir hana og hún er að kaupa dót handa mér, þá getur maður lent í að opna rangan pakka.“ 

En aftur að flugvallaveseninu. Lautner (leikarinn), segir:  „TSA, flugvöllur, við erum spurð „hver ykkar er Taylor?“ Og við svörum „við bæði“ og þá erum við spurð „hver ykkar er Taylor Lautner?“ og við svörum aftur „við bæði“.“

Lautner segir að jafnan endi þetta með að öryggisverðirnir haldi að eitthvað glæpsamlegt sé í gangi og sendi hjónin í frekari öryggisskoðun. Þáttastjórnandinn Josh Peck svarar í gríni að hann skilji þetta mjög vel.

Hlustendur komu með lausn á öðru vandamálinu , að annað þeirra gæti tekið upp nafnið Tay þegar þau panta á netinu, þannig er hægt að aðgreina hver á hvaða pakka. 

Eftir stendur vandamálið með flugvellina.