Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Útskrifaðist úr háskóla, byrjaði í sínu fyrsta fulla starfi og grætur af vonbrigðum – Hvernig fer fólk að þessu?

Ung kona að nafni Brielle hefur vakið mikla athygli á TikTok, en þar deilir hún grátandi raunum sem margir geta efalaust tengt við. Þar spurði hún hreinlega hvernig fólk sem vinnur frá 9 á morgnanna til klukkan 17 hafi tíma til að lifa lífinu: „Hvernig fer fólk að þessu?“

Brielle útskýrði í myndbandinu að hún útskrifaðist nýlega úr háskóla og byrjaði í kjölfarið í fullri dagvinnu. Vinnustaður hennar býður ekki upp á fjarvinnu svo hún þarf að mæta í vinnuna og sinna störfum sínum á vinnustöð. Þetta felur í sér að hún þarf að komast í og úr vinnunni líka, en hún býr í stórri borg og tekur það drjúgan tíma að komast þar milli staða. Fólk gæti alveg sleppt því að ráðleggja henni að flytja nær vinnustaðnum því ógerningur sé að kaupa eða leigja á því svæði miðað við markaðinn í dag.

Til að komast í vinnuna klukkan 9 þarf hún að taka lest klukkan 7:30 og svo lestina heim að vinnudegi loknum en þannig komist hún í fyrsta lagi heim klukkan 18:15 en stundum tekur þetta enn lengri tíma.

„Ég hef engan tíma til að gera nokkuð. Eftir að ég kem heim langar mig bara að fara í sturtu, borða kvöldmat og fara svo að sofa. Ég hef hvorki tíma né orku til að elda mér mat. Ég hef ekki orku til að fara í ræktina, svo það er farið fyrir bí.“

Það sé ekki vinnan sem er vandamálið. Hún hefur gaman að vinnunni sinni. Það sé aftur á móti þessi langa vinnuvika sem sé vandamálið. Átta tíma vinnudagur sé galinn ef ekki er um fjarvinnu að ræða. Átta tíma vinnudagur taki ekki tillit til þess tíma sem það tekur starfsmenn að koma sér í vinnuna og heim, en í stórborgum geta þetta verið um þrjár klukkustundir á dag sem bitna á frítímanum.

Hún segist ekki átta sig á því hvernig aðrir í hennar stöðu finni tímann og úthaldið til þess að stunda stefnumót eða hitta vini.

„Ég hef ekki tíma fyrir neitt og ég er svo stressuð.“

Hún birti myndbandið fyrir viku síðan og strax eru rúmlega milljón manns búnir að horfa á það. Fjölmargir hafa kvatt sér hljóð í athugasemdum og sent henni stuðning.

„40 stunda vinnuvikan er úrelt og rúmlega það og tilfinningar þínar eiga rétt á sér.“

„40 stunda vinnuvikan var hönnuð með það í huga að húsmæður væru heima að sjá um uppeldi og heimilið. Nú þurfa heimili tvennar tekjur svo þetta er ekki mögulegt lengur. Enginn hefur tíma fyrir neitt“

Sumir reyndu þó að stappa í hana stálinu og bentu á að gott skipulag geri gæfumuninn.

„Þú átt eftir að finna rútínu sem virkar fyrir þig skvísa. Eldaðu matinn þinn viku fram í tímann. Það hefur hjálpað mér mikið.“

Aðrir nefndu að fjarvinna hafi gert gæfumun í þeirra lífi. Brielle svaraði því og tók fram að hún sé stöðugt að sækja um vinnur þar sem slíkt er í boði, en það hafi ekki borið erindi sem erfiði.

Brielle sagði í yfirlýsingu til Independent að myndband hennar og viðbrögð við því sýni þörfina á nýju fyrirkomulagi hvað varðar jafnvægið á milli vinnu og einkalífs.

„Ég vil tala máli næstu kynslóðar og útskýra hvernig 40 tíma vinnuvika auk ferðatímans í og úr vinnu, er ekki að fara að skila sér í betri frammistöðu. Ég kann að meta jákvæð viðbrögð og reynslusögur frá öðrum launþegum og ég vona að fleiri vinnuveitendur ákveði að fylgja í fótspor annarra landa hvað varðar styttingu vinnuvikunnar, sérstaklega eftir að fólk fékk nasaþefinn fjarvinnu og hægindum hennar í faraldri Covid.“

@brielleybelly123im also getting sick leave me alone im emotional ok i feel 12 and im scared of not having time to live

♬ original sound – BRIELLE