Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Nýtt Arons Jó mál í uppsiglingu? – Fyrrum leikmaður FH og Breiðabliks spilaði í Meistaradeildinni í dag en gæti valið Bandaríkin

William Cole Campbell, 17 ára kantmaður Borussia Dortmund er samkvæmt heimildum 433.is að skoða það að spila fyrir Bandaríkin frekar en íslenska landsliðið. Er hann með tvöfallt ríkisfang.

William Cole gekk í raðir Dortmund á síðasta ári en hann hafði þá í stutta stund verið leikmaður Breiðabliks. Áður var hann leikmaður FH.

William Cole er sonur Rakelar Bjarkar Ögmundsdóttur, fyrrum landsliðskonu í knattspyrnu en faðir hans er frá Bandaríkjunum. Fjölskyldan hefur lengst af búið í Bandaríkjunum.

William Cole hefur spilað fjölda leikja fyrir U17 ára landslið Íslands en hann gaf ekki kost á sér í síðasta verkefni sem KSÍ vildi fá hann í.

„Ekki okkur vitandi,“ segir Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ í samtali við 433.is þegar hann er spurður að því hvort William Cole hefði tekið ákvörðun um að spila fyrir Bandaríkin.

„Hann er með tvöfallt ríkisfang. Hann hefur ekki upplýst okkur um það að hann gefi ekki kost á sér í íslenska landsliðið. Hann gaf ekki kost á sér í síðasta verkefni, sjálfsagt eru fjölskyldan bara að skoða þetta,“ segir Jörundur.

William Cole var í viðtali við Stöð2 fyrir tveimur árum og þá var hugur hans hjá íslenska landsliðinu. „Mig langar að spila fyrir Ísland af því að mamma mín var í kvennalandsliðinu. Ef ég mun spila fyrir Ísland mun ég keppa við Frakkland, Þýskaland og svona stór lið, en í Bandaríkjunum myndi ég spila miklu meira á móti Mexíkó og suðrænum amerískum liðum,“ sagði William Cole árið 2021.

Nú gæti hann hins vegar verið annars hugar og tekið sömu ákvörðun og Aron Jóhannsson tók árið 2013 þegar hann valdi að spila fyrir Bandaríkin frekar en Ísland.

William Cole var í byrjunarliði hjá U19 ára liði Dortmund í dag þegar liðið vann góðan sigur á Newcastle í Meistaradeild Evrópu í dag.