Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Alvarleg ábending en átti ekki við rök að styðjast

Matvælastofnun segir að ábending sem stofnuninni hafi borist nýverið vegna hrossahald á bæ á Vestfjörðum hafi verið flokkuð sem alvarleg ábending og var rannsókn málsins strax sett í forgang og fóru starfsmenn stofnunarinnar á vettvang daginn eftir. Rannsókn leiddi hins vegar í ljós að engin frávik komu fram varðandi velferð dýranna og að engin bráð hætta steðjaði að þeim. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.

Forsögu málsins má rekja til þess að í vor hafði verið send inn ábending frá sama aðila vegna hrossahalds á bænum. Við eftirlit þá komu fram alvarleg frávik vegna þriggja hrossa á bænum. MAST segir eigandann hafa brugðist við kröfum stofnunarinnar án þess að til þvingunaraðgerða kæmi.

Stein­unn Árna­dótt­ir, íbúi í Borg­ar­nesi, kom við þetta tilefni fram í viðtali hjá mbl.is og staðfesti að hún hefði sent inn ábendinguna og að hún hefði gert sér sérstaka ferð um 800 km leið til að kanna ástand hestanna. Áður hafði Steinunn gert athugasemd við aðbúnað annarra hrossa í Borgarfirði.

Kom þá fram að nokkrum mánuðum áður hafði MAST skilað skýrslu um hrossahald á bænum þar sem niðurstaðan var að ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við aðbúnað dýranna. Steinunn sagði við mbl.is í vor að þá hefði m.a. einn hestanna vart getað gengið og verið mjög verkjaður.

Tilkynninguna núna sendir MAST frá sér vegna nýrra ábendinga sem Steinunn sendi. „Fyrir nokkrum dögum barst Matvælastofnun ábending frá einstaklingi sem sneri að hrossahaldi á tilteknum bæ á Vestfjörðum, nokkuð afskekktum. Umræddur einstaklingur hefur áður sent ábendingu vegna sama dýrahalds. Höfundur ábendingarinnar lét ekki duga að senda Matvælastofnun ábendinguna heldur sendi afrit af henni til forsætis- og matvælaráðherra, alþingismanna og fjölmiðla auk þess að birta hana á samfélagsmiðlum. Stofnunin gerir ekki athugasemdir við það, en í ábendingunni er gefið í skyn að Matvælastofnun sinni ekki skyldum sínum við eftirlit með dýravelferð og þetta tiltekna mál talið sanna það,” segir í tilkynningu MAST. Fjallaði Rúv meðal annars um þessar ábendingar og viðbrögð MAST.

Segir MAST því næst að rétt sé að koma því á framfæri að ábendingin hafi verið flokkuð sem alvarleg, málið verið sett í forgang og starfsmenn stofnunarinnar hafi farið beint daginn eftir vestur. „Alls voru 24 hross á bænum. Þau voru á góðri beit á rúmgóðu landi, með náttúrulegu skjóli og góðum aðgangi að vatni. Hrossin voru spök og tækifæri gafst til að skoða hvert og eitt og leggja mat á ástand þeirra. Niðurstaðan var sú að engin frávik komu fram varðandi velferð hrossanna og engin bráð hætta steðjaði að þeim,” segir jafnframt í tilkynningu MAST.

Þá er tekið fram að ekki sé fyrirhugað að hross verði haldin á bænum í vetur og hefur MAST sannreynt að ráðstafanir hafi verið gerðar þar að lútandi.

mbl.is