Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Vilja varanlega starfsstöð á Nýja-Sjálandi

Sveinn Stefán Hannesson, forstjóri verktakafyrirtækisins Jarðborana, segir að fyrirtækið stefni að því að koma upp varanlegri starfsstöð á Nýja-Sjálandi. Týr, einn af borum félagsins, er þar nú að störfum. „Við höfum ráðið inn starfsfólk til að sinna því. Það eru möguleikar á fleiri verkefnum í landinu, sem er ríkt að jarðhita líkt og Ísland. Einnig sjáum við fyrir okkur að sækja verkefni í löndum í svipuðu tímabelti, í Ástralíu, Filippseyjum og Indónesíu. Við gætum sinnt þeim frá bækistöð okkar á Nýja-Sjálandi,“ segir Sveinn.

Tæplega tvö hundruð manns vinna í dag hjá Jarðborunum og hefur starfsfólki fjölgað um 140 á undanförnu einu og hálfu ári.

Að fjölga verkefnum fyrir stóru borana er forgangsmál. „Það eykur kostnað við verkefnin ef borarnir, sem hver og einn kostar milljarða króna, þurfa kannski að standa ónotaðir um lengri tíma.“

Horft til jarðhita

Um framtíðarverkefni Jarðborana segir Sveinn að nú séu aðstæður með þeim hætti í Evrópu að ráðamenn horfi í síauknum mæli til jarðhita sem orkugjafa. Það skapi sóknarfæri fyrir Jarðboranir. Ástæðan er m.a. hækkandi gasverð vegna stríðsins í Úkraínu. „Það er einnig horft til öryggisaðstæðna, að vera ekki háð fjarlægum löndum með orku. Það getur verið erfitt að búa við þá ógn að skrúfað verði fyrir gasið ef framleiðandanum líkar ekki við þig,“ segir Sveinn í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann í dag.