Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Öryrkjar tapa krónu á móti krónu máli í Hæstarétti

Hæstiréttur vísaði í dag aðalkröfu og varakröfu Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) gegn Tryggingastofnun (og þar með íslenska ríkinu) frá dómi og sýknaði Tryggingastofnun af þrautavarakröfu í máli sem varðar svonefnda krónu fyrir krónu skerðingu.

Málið á rætur að rekja til lagasetningar Alþingis árið 2016, en þá voru allir bótaflokkar ellilífeyrisþega sameinaðir í einn ellilífeyri frá og með ársbyrjun 2017. Um leið var ákveðið að afnema krónu fyrir krónu skerðingu sérstakrar uppbótar á ellilífeyri, en breytingin var hins vegar ekki látin ná til örorkulífeyrisþega. Sættu þeir skerðingar sérstakrar uppbótar árin 2017 og 2018, en skerðingin var svo lækkuð í 65% frá og með ársbyrjun 2019.

Öryrkjar sögðust beittir misrétti

ÖBÍ höfðaði mál árið 2019 fyrir hönd eins skjólstæðings síns þar sem krafist var leiðréttingar á þessu og farið fram á bætur fyrir viðkomandi ár vegna misréttis. Sagði ÖBÍ að fyrir breytingarnar í byrjun árs 2017 hefðu elli- og örorkulífeyrisþegar átt sama rétt til sérstakrar uppbótar á lífeyri og sætt sömu skerðingu uppbótarinnar vegna annarra tekna. Eftir breytingarnar væri staða örorkulífeyrisþega hins vegar lakari en ellilífeyrisþega.

Byggði málsóknin meðal annars á því að ekki standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að mismuna lífeyrisþegum með þessum hætti.

Hæstiréttur Íslands féllst ekki á kröfur ÖBÍ.

Hæstiréttur Íslands féllst ekki á kröfur ÖBÍ. mbl.is/Oddur

Dómstólar taki ekki ákvörðun í máli sem heyrir undir löggjafann

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að vísa frá kröfu ÖBÍ þar sem í þeim fælist krafa um að dómstólar tækju ákvörðun um málefni sem heyrði undir löggjafarvald og væri það andstætt stjórnarskrá. Var varakröfu málsins, þar sem farið var fram á skaðabótaskyldu, einnig vísað frá dómi og var það vegna vanreifunar.

Málefnalegt að mismunandi stefna gildi um mismunandi hópa

Þrautavarakrafa ÖBÍ gekk út á að óheimilt hafi verið að skerða greiðslurnar á árunum 2017 og 2018. Segir í dómi Hæstaréttar að litið hafi verið til ólíkra forsendna annars vegar að baki ellilífeyri og hins vegar réttar til greiðslu sérstakrar uppbótar sem þáttar í félagslegri aðstoð til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Taldi Hæstiréttur ekki ómálefnalegt að markmið og stefnu stjórnvalda í málaflokkum þessara hópa væri ekki eins í öllu tilliti og var vísað til að ólíkar reglur hefðu ávallt gilt um áhrif tekna á einstaka bótaflokka ellilífeyris og örorkulífeyris. Þá hefðu mismunandi þarfir og aðstæður á hverjum tíma innan hvors málaflokks gefið tilefni til sjálfstæðra lagabreytinga.

Segir Hæstiréttur að þar sem ekki er um sambærileg tilvik að ræða hafi ekki átt sér ólögmæt mismunun sem brjóti í bága við stjórnarskrá. Þar með var fyrri niðurstaða Landsréttar um að sýkna af þessari kröfu staðfest.

mbl.is