Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Launaþjófnaður afhjúpaður á Suðurlandi eftir hálft ár af stappi – Rótgróinn aðalverktaki spilaði lykilhlutverk

Undirverktaki á Suðurlandi braut gróflega á réttindum rúmenskra starfsmanna sinna við byggingu á aðstöðu fyrir opinberan aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rafiðnaðarsambandi Íslands í dag.

Grunur um brotin vaknaði í mars, eftir að vinnustaðaeftirlit Húss fagfélaganna og Eflingar ásamt fulltrúa frá Bárunni fóru í eftirlitsferð á byggingasvæðið. Fram kemur að rótgróinn íslenskur aðalverktaki fari með umsjón framkvæmdarinnar.

Hittu eftirlitsfulltrúar rúmenska starfsmenn undirverktaka á vettvangi og reyndist enginn þeirra hafa aðgang að launaseðlum sínum. Þeir vissu því ekki hvað þeir höfðu í laun, hvorki fyrir né eftir skatta. Eftirlitsfulltrúar leituðu til aðalverktakans og minntu hann á ákvæði laga sem fjalla um svokallaða keðjuábyrgð, en sú ábyrgð gerði honum skylt að tryggja að allir starfsmenn sem að framkvæmdinni kæmu fengju laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar sem og önnur réttindi.

Aðalverktaki ákvað strax að taka málið föstum tökum. Stéttarfélögunum gekk illa að fá undirverktaka til að afhenda launaseðla og gögn, en þá steig aðalverktaki inn og hélt eftir lokagreiðslu til undirverktaka og krafðist þess að undirverktaki liðsinnti stéttarfélögunum.

Þessi slagur hófst í mars en gögnin fengust loks afhent í september. Þá kom í ljós að erlendu starfsmennirnir, sem eru allir án sveinsprófs, hafði verið greitt undir taxta bæði hvað varðaði dagvinnu og yfirvinnu. Ranglega var staðið að styttingu vinnuvikunnar, þeir fengu ekki desember- eða orlofsuppbætur og ekki heldur kjarasamningsbundna launahækkun í nóvember á síðasta ári. Starfsmönnum hafi loks ekki verið greitt fyrir akstur.

Samkvæmt tilkynningu hefur aðalverktaki gert undirverktaka sínum ljóst að engin lokagreiðsla fari fram fyrr en gert hefur verið upp við starfsmennina með sannanlegum hætti. Segir Rafiðnaðarsambandið að þessi afstaða aðalverktaka hafi vegið þungt í málinu, en stéttarfélögin munu fylgja því eftir af fullri hörku allt til enda.