Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Yndislegt að búið sé að opna Þorskafjarðarbrú

Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá því þegar Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, opnuðu formlega nýju Þorskafjarðarbrúna með því að klippa á borða við mikinn fögnuð viðstaddra.

Það voru hins vegar mæðgur úr Gufudal sem fyrstar fóru yfir brúna og það á hestbaki, þær Jóhanna Ösp Einarsdóttir og dætur hennar tvær, Ásborg og Yrsa Dís Styrmisdætur. 

Mæðgurnar úr Gufudal riðu fyrstar yfir brúna eftir að búið var að klippa á borðann.Einar Árnason

En hvað var Sigurði Inga efst í huga á þessum degi?

„Að sjá framfarirnar raungerast, áhuga fólksins og gleðina sem skín hér úr hverju auga. Það er auðvitað bara.. – samgöngur skipta svo miklu máli fyrir fólkið í landinu,“ sagði ráðherrann.

„Þetta var bara gleðidagur. Ég var víst með einhverjar yfirlýsingar við einhvern fréttamann hérna í vor og sagðist ætla að ríða þarna yfir. Maður verður að standa við það sem maður segir,“ sagði Jóhanna Ösp, sem auk þess að vera varaoddviti Reykhólahrepps er jafnframt formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Jóhanna Ösp Einarsdóttir í viðtali framan við Hótel Bjarkalund þar sem boðið var upp á kaffi og kræsingar ásamt tónlist og ræðuhöldum.Einar Árnason

„Þetta þýðir sjö klukkutímar á viku sem fjölskyldumeðlimir í minni fjölskyldu eru minna í bíl,“ sagði Jóhanna Ösp um áhrif brúarinnar á nærsamfélagið.

„Þetta er afrek. Þetta er fallegt mannvirki og vel gert og tekur tillit til allra umhverfissjónarmiða. Þannig að ég held að þetta sé bara eitt af því sem við getum verið gríðarlega stolt af,“ sagði Sigurður Ingi en Suðurverk var aðalverktaki.

Þetta 2,2 milljarða króna mannvirki er fyrsta stórvirkið sem lokið er við eftir að deilu um Teigsskóg lauk, deilu sem hélt vegagerð á svæðinu í herkví í tvo áratugi.

„Ég prófaði að fara þar í gegnum fyrr í dag og ég veit að það munu allir verða stoltir af þeirri framkvæmd og glaðir að fara þar í gegn,“ sagði ráðherrann.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í viðtali á Þorskafjarðarbrúnni í dag.Einar Árnason

Áætla má að hátt í tvöhundruð manns hafi mætt í brúarvígsluna, margir langt að komnir. Sjá mátti fjölda fólks bæði af sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum og sumir óku alla leið úr Reykjavík. Og ökumenn flautuðu af gleði þegar þeir fengu að aka yfir.

„Þetta er einstakur dagur. Þetta er alveg yndislegt að fá að upplifa þetta að það sé búið að opna Þorskafjarðarbrú og að þetta verkefni sé bara hreinlega komið á laggirnar,“ sagði Ingibjörg Birna sveitarstjóri.

„Náttúrlega hefur þetta mikla þýðingu gagnvart íbúum okkar. Við höfum sagt það áður; að koma fólkinu og börnunum niður af fjallvegunum - Þorskafjarðarbrú er bara hluti af því verki – en við erum að sjá fram á að þetta er að klárast. Þetta er að verða að veruleika,“ sagði sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps,Einar Árnason

En það er ekki allt eins og að var stefnt. Ríkisstjórnin hafði áður lofað því að ljúka vegagerð um Gufudalssveit árið 2024, það er á næsta ári, og það mun ekki nást. Eftir er að brúa Djúpafjörð og Gufufjörð. En hvenær lýkur þá verkinu?

„Á næsta ári verða þrjár brýr boðnar út og það mun taka að hámarki þrjú til fjögur ár að klára allt saman. Þannig að í síðasta lagi verður allt búið ´27. Vonandi ´26,“ svaraði innviðaráðherra.

„En það fer auðvitað eftir því hversu hratt og vel gengur. Hér erum við að sjá framkvæmdir sem hafa klárast átta mánuðum á undan áætlun. Þannig að, já, ég lít mjög björtum augum á það sem eftir er og að það klárist hratt og vel,“ sagði Sigurður Ingi.

Stöð 2 fjallaði fyrr í mánuðinum um þá samgöngubyltingu sem er að verða á Vestfjörðum: