Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Nei, þetta var ekki kynlíf!

„Það er mjög erfitt að sitja og horfa á kvikmynd um sjálfa sig, um líf sitt og ást. Sofia hefur unnið þrekvirki. Hún vann heimavinnuna sína, við töluðum nokkrum sinnum saman og ég lagði allt sem ég mögulega gat á borðið.“

Þannig svaraði Priscilla Presley þegar hún var spurð álits á kvikmyndinni Priscilla á blaðamannafundi í Feneyjum með tárin í augunum. Myndin, sem er eftir Sofiu Coppola, fjallar um samband Priscillu og Elviss Presleys, frá hennar sjónarhorni. 

Priscilla viðurkenndi að foreldrar hennar hefðu átt erfitt með að skilja þennan mikla áhuga Elviss á henni. „Ég held að það hafi öðru fremur verið vegna þess að ég var góður hlustandi. Elvis galopnaði hjarta sitt á alla lund fyrir mér í Þýskalandi; talaði um ótta sinn, vonir og væntingar, móðurmissinn – sem hann komst aldrei yfir. Og ég var manneskjan sem sat róleg og hlustaði á hann og huggaði. Það var tengingin okkar. Þó að ég hafi ekki verið nema 14 ára þá var ég í raun lengra komin á lífsbrautinni – þó að aldurinn gæfi það ekki til kynna. Í því fólst hin gagnkvæma hrifning. Fólk hugsar: Ó, þetta var kynlíf. Nei, svo var ekki. Við nutum aldrei ásta [í Þýskalandi]. Hann var mjög ljúfur, viðkvæmur og ástríkur, en bar líka virðingu fyrir því að ég var ekki nema 14 ára. Hugir okkar lágu saman, þannig var sambandið.“ 

Cailee Spaeny, sem leikur Priscillu í myndinni, og Priscilla Presley …

Cailee Spaeny, sem leikur Priscillu í myndinni, og Priscilla Presley sjálf. AFP/Gabriel Bouys


Priscilla kveðst ekki hafa sagt nokkrum manni að þau hafi verið að hittast á þessum tíma, sem hann kunni víst vel að meta. „Ég minntist aldrei á það í skólanum. Þannig
 byggðum við upp samband okkar sem stóð þangað til ég fór. Það var ekki vegna þess að ég elskaði hann ekki – hann var ástin í lífi mínu. Það var lífsstíllinn sem var mér svo erfiður og ég held að allar konur geti tengt við það.“

Tvö gjörólík sjónarhorn

Þannig lýsti Coppola myndinni í samtali við tímaritið Vogue:

„Priscilla er algjör jaðarpersóna [í kvikmyndinni Elvis] þannig að mér leið aldrei eins og að ég væri að feta sömu braut. Þvert á móti held ég að það verði mjög áhugavert að fá tvö gjörólík sjónarhorn á sömu atburðina. Ég sneiði ekki hjá ferli Elviss en hann er ekki í forgrunninum, heldur samband þeirra tveggja og hvernig hún þróar sína sjálfsmynd. Saga Priscillu heillaði mig og hennar upplifun af því að alast upp sem táningur á Graceland. Hún varð að konu í svo ofboðslega ýktu umhverfi – ekki ósvipað Maríu Antoinette.“

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á dögunum og kemur í kvikmyndahús í Bandaríkjunum eftir um mánuð. Coppola skrifar sjálf handritið upp úr endurminningum Priscillu Presley, Elvis & Me, frá árinu 1985. Priscilla er heldur ekki langt undan en hún er meðframleiðandi að myndinni. Styrkur, segja sumir. Löstur, segja aðrir.

Coppola fundaði nokkrum sinnum með Priscillu meðan á verkefninu stóð og segir hana hafa verið ótrúlega opna og hjálplega. „Myndin á að vera tilfinningalega sönn. Ég hef átt endurminningar hennar um langt árabil og las bókina fyrst fyrir löngu. Þegar ég las hana aftur hreyfði hún sterkt við mér. Það erfiðasta við að skrifa handritið var að velja hvaða ótrúlegu smáatriðum við ættum að halda og hverjum við ættum að sleppa,“ sagði Coppola við Vogue.

Nánar er fjallað um kvikmyndina Priscillu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.