Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Minntust forfeðranna á Íslandi

„Góðan daginn,“ segir glaðleg rödd þegar blaðamaður Morgunblaðsins slær á þráðinn vestur um haf, nánar tiltekið til miðríkja Bandaríkjanna.

Fyrir svörum er Sunna Pamel Darlene Olafsson-Furstenau, sem fór fyrir vöskum hópi Vestur-Íslendinga sem lögðu leið sína til landsins í haust til að upplifa Ísland sem þeir tengjast svo sterkum böndum.

Ferðin hófst með móttöku Elizu Reed, forsetafrúar Íslands, á Bessastöðum. „Þetta var dásamleg ferð og við skemmtum okkur vel,“ segir Sunna.

Óvænt uppákoma

Í kjölfar móttökunnar var haldið á hringveginn til að njóta íslenskrar náttúru og menningar en margt fór öðruvísi en ætlað var.

„Við þurftum að stytta ferðina. Eftir tveggja daga stopp á Egilsstöðum var haldið til Akureyrar en þegar þangað var komið voru fimm orðnir verulega veikir. Eftir covid-próf kom í ljós að allur hópurinn, 25 manns höfðu náð sér í veiruna skæðu og veiktust illa. Því þurfti að aflýsa stefnumóti við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benedikstsson fjármálaráðherra sem átti að vera endapunktur ferðarinnar. „Það olli vonbrigðum,“ segir Sunna, sem fer fyrir samtökunum Icelandic Roots sem hafa því hlutverki að gegna að næra samskipti við gamla móðurlandið með fjölbreyttu starfi, bæði með fræðslu og skemmtun.

Ferðin gekk til að byrja með vel og kom hópurinn við í höfnum víða um land þaðan sem vesturfarar héldu til að leita gæfunnar í nýju landi. Tré voru gefin sem munu skjóta hér rótum og minnismerki reist til að minna á fortíðina og arfleifðina.

Íslandsferðin hófst með móttöku á Bessastöðum áður en haldið var …

Íslandsferðin hófst með móttöku á Bessastöðum áður en haldið var á slóðir forfeðranna þar sem þeirra var minnst með virðulegum hætti.

Fræðsla og skemmtun

Fólkið sem lagði leið sína til landsins var á öllum aldri og jafnvel ungt fólk með mikinn áhuga á Íslandi. Um tuttugu manns eru undir þrítugu í samtökunum.

„Það er býsna gott! Tilgangur ferðarinnar var að fræða fólk um Ísland.“

Enginn leiðsögumaður var með í för enda ferðalangarnir víðlesnir og jafnvel fróðari um land og þjóð en bílstjórinn sem þó vissi mikið og miðlaði af reynslu sinni. „Í rútunni voru sagðar þjóðsögur, m.a. af tröllum og draugagangi, og rifjuð upp saga lands og þjóðar.“

Icelandic Roots heldur utan um gagnagrunn yfir fjölda þeirra sem héldu til Vesturheims frá Íslandi þar sem fólk getur rakið ættir sínar til landsins. Um þessar mundir eru nærri 800 þúsund utan landsteinanna sem geta rakið ættir sínar til þeirra sem kvöddu landið í leit að nýjum ævintýrum.

Ítarlegri umfjöllun má finna á síðu 16 í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 28. september.