Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Guðni segir að ferðaþjónustan sé að drepa íslenskan landbúnað

Staða bænda er víða mjög erfið vegna mikilla skuldsetningar, hárra vaxta og verðbólgu. Þá er einsýnt að ungir bændur eiga mjög erfitt með sinn rekstur. Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum í Flóa, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins hefur miklar áhyggjur af stöðunni og á von á fjölda gjaldþrota í greininni verði ekkert gert í málefnum bænda.

Og Guðni á þessi skilaboð til ríkisstjórnarinnar.

„Ég bara skora á ríkisstjórnina að bretta upp ermar og opna augun og gera sér grein fyrir því að matvælalandið Ísland, við erum að tapa því út úr höndunum ef þeir ekki taka stórt á núna,” segir hann og bætir við.

„Það þarf bara að hugsa um lífskjör bændanna eins og lífskjör lögreglunnar, kennaranna eða þingmannanna. Hvað þurfa þeir til að lifa og við getum ekki haft þetta fólk eins og það sé þurfalingar og ekki búið við það að menn bara loki fjósum og hætti búskap, sem er mjög auðvelt núna í ferðaþjónustunni.

Og Guðni heldur áfram.

„Stjórnmálamennirnir verða að vakna og gera sér grein fyrir því að þetta er atvinnuvegur, sem lifir eða deyr hvort sem þeir taka á. Þeir halda utan um búvörusamningana, utan um tollamálin, utan um verðlagninguna, þannig að þeir koma að þessu öllu og þeir geta ekki verið stikkfrí.”

„Ég bara skora á ríkisstjórnina að bretta upp ermar og opna augun og gera sér grein fyrir því að matvælalandið Ísland, við erum að tapa því út úr höndunum ef þeir ekki taka stórt á núna,” segir Guðni Ágústsson.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og Guðni hefur skoðun á störfum Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra.

„Ég verð að segja fyrir mig að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hana og ríkisstjórnina í heild sinni fyrir hönd landbúnaðarins.”

Ef þú værir landbúnaðarráðherra í dag, hvað myndir þú gera?

„Setjast niður með bændum og skoða starfsgrundvöllinn.”

Og Guðni gagnrýnir harðlega íslenska ferðaþjónustu.

„Ferðaþjónustan átti að bjarga hér landsbyggðinni. Nú er ferðaþjónustan, sem ferðamaðurinn vill njóta. Nú er hún að drepa landbúnaðinn. Það er auðvelt að hætta og loka fjósinu og breyta því bara í gistihús. Þetta er bara alvarlegt mál eins og oft koma á borð þessarar þjóðar,” segir Guðni Ágústsson.