Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Vestri í Bestu deildina eftir framlengdan úrslitaleik

Iker Hernández reyndist hetja Vestra þegar liðið mætti Aftureldingu í úrslitum umspils um sæti í Bestu deild karla í knattspyrnu að ári á Laugardalsvellinum í dag.

Fyrri hálfleikurinn var vægast sagt tíðindalítill en Ivo Braz átti fyrstu skottilraun leiksins fyrir Aftureldingu á 11. mínútu, úr mjög þröngu færi vinstra megin, en skotið fór vel framhjá.’

Silas Songani fékk hættulegasta færi Vestramanna í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegn en hann ákvað að skjóta á markið í stað þess að senda fyrir markið á Benedikt V. Wáren sem var gapandi frír á fjærstönginni, og skotið fór langt framhjá.

Afturelding fékk aukaspyrnu á stórhættulegum stað undir lok fyrri hálfleiks, alveg við D-bogann, en spyrnan var arfaslök hjá Ásgeiri Marteinssyni og fór beint í vegginn og staðan því markalaus í hálfleik.

Besta færi leiksins

Vestri byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og Morten Hansen átti skalla rétt framhjá strax á 48. mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri.

Silas Songani fékk besta færi leiksins á 58. mínútu þegar Benedikt Warén átti frábæra sprett upp vinstri kantinn. Benedikt sendi boltann fyrir markið  þar sem Silas var nánast einn fyrir opnu marki en Yevgen Galchuk í marki Aftureldingar varði meistaralega frá honum.

Fátt markvert gerðist í leiknum eftir þetta og var staðan því markalaus að venjulegum leiktíma loknum og því var gripið til framlengingar.

Stórkostlegt sigurmark

Á 103. mínútu dró til tíðinda þegar Vestri átti aukaspyrnu úti hægra megin á vallarhelmingi Aftureldingar. Boltinn barst til Serigne Fall sem átti stórkostlega utanfótarsendingu fyrir markið og þar var Iker Hernández mættur á fjærstöngina og hann skaut boltanum viðstöðulaust upp í þaknetið af stuttu færi úr teignum og staðan orðin 1:0.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingarinnar dró til tíðinda þegar Morten Hansen braut á leikmanni Aftureldingar. Morten fékk að líta gula spjaldið og stóð yfir honum til þess að láta hann aðeins heyra það. Andri Freyr Jónasson mætti þá á svæðið og stuggaði hressilega við Hansen með þeim afleiðingum að hann fékk að líta rauða spjaldið og Mosfellingar því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

Leikurinn svo gott sem fjaraði út í síðari hálfleik framlengingarinnar. Mosfellingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en líkt og í venjulegum leiktíma, tókst þeim aldrei að láta reyna almennilega á Marvin Darra Steinarsson í marki Vestra og lokatölur því 1:0, Vestra í vil, á Laugardalsvellinum.

Vestri leikur því í Bestu deildinni á næstu leiktíð eftir að hafa hafnað í 4. sæti 1. deildarinnar en Afturelding, sem endaði í 2. sætinu, þarf að gera sér það að góðu að leika í 1. deildinni næsta sumar.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

90. mín. Leik lokið Góður sigur hjá gestunum: Færanýting þeirra í seinni hálfleik gerði gæfumuninn og var þar Hulda Hrund Arnarsdóttir lykilmaður.
90. mín. Leik lokið Þvílíkt og annað eins. Tottenham vinnur hér hádramatískan sigur í mögnuðum leik þar sem Liverpool fékk tvö rauð spjald.

Leiklýsing

120. mín. Leik lokið Leik lokið með sigri Vestra! Þeir eru komnir í efstu deild! Til hamingju Vestfirðingar nær og fjær!
mbl.is