Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Var Díana prinsessa ráðin af dögum?

Það er kominn föstudagur sem þýðir að félagarnir þrír í hlaðvarpinu Álhatturinn, eru mættir aftur með funheita samsæriskenningu. Að þessu sinni er sjónunum beint að einu frægasta og átakanlegasta slysi síðustu áratuga, andlát Díönu prinsessu af Wales, og þeirri spurningu velt upp hvort þarna hafi í raun alls ekki verið um slys að ræða, heldur launráð konungsfjölskyldunnar til að losa sig við prinsessuna vinsælu.

Ein þekktasta og dáðasta kona veraldar

Diana Frances Spencer, betur þekkt sem Díana prinsessa af Wales, var ein þekktasta og dáðasta kona veraldar seint á síðustu öld. Hún giftist Karli, þá bretaprinsi og nú konungi, í júlí 1981 og naut hún strax mikilla vinsælda á Bretlandseyjum og víðar. Hjá að er virtist öllum nema konungsfjölskyldunni.

Samband hennar og Karls var strax frá upphafi mjög óhamingju- og stormasamt. Fljótt fóru að hvíslast út sögur um ótryggð og framhjáhald þeirra hjóna. En það var ekki bara fyrir þetta stormasama samband sem vakti athygli á prinsessunni, en auk þess að þykja einstaklega vel gefin og máli farin þótti hún einnig einkar glæsileg og var talin ein fegursta kona Bretlands.

Það var þó barátta hennar á öðrum sviðum sem vakti kannski mesta athygli. Hún var mikil baráttukona fyrir betri heim og hugsaði alltaf til þeirra er minna máttu sín.

Þekktust er hún eflaust fyrir baráttu sína fyrir alþjóðlegu banni á jarðsprengjum auk þess að vera ein sú fyrsta í heiminum til þess að vekja athygli á alnæmisfaraldrinum og aðbúnaði og lífsskilyrðum alnæmis og holdsveikissjúklinga. Þá var hún líka ófeiminn við að ræða eigin baráttu við geð og átraskanir og líklega ein fyrsta manneskjan í heiminum til þess að opna sig um þau mál með jafn opnum hætti og hún gerði.

En eftir nokkur hræðilega erfið og óhamingjusöm ár í hjónabandi skildu Karl og Díana loks að borði og sæng árið 1992, þó lögformlegum skilnaði hafi ekki lokið fyrr en 1996.

Var þetta slys eða morð?

Eftir það voru bæði Karl og Díana mikið á milli tannana á fólki og stöðugt fjallað um þau í breskum götublöðum og fjölmiðlum. Þeim og spúsum þeirra var fylgt í hvert fótmál og segja má að friðhelgi þeirra og einkalíf hafi svo gott sem ekkert verið. Þau komust varla á klósettið án þess að það kæmi mynd af því á forsíðum blaðanna og voru elt á röndum af ágengum götublaðamönnum og ljósmyndurum sem virtust ekki bera neina virðingu fyrir einkalífi Karls, Díönnu eða elskhuga þeirra.

Það var svo að kvöldi 31. ágúst 1997 sem Díana og elskhugi hennar Dodi Fayed létust í árekstri ásamt bílstjóra sínum, Henri Paul, í Pont de Alma göngunum í París. Upphaflega var talið að um slys vegna háskaaksturs væri að ræða, sem skrifa mætti á glæfralegan eltilingarleik undan ágengum blaðaljósmyndurum, en síðar breyttist skýringin og skuldinni skellt á bílstjórann, sem var sagður hafa verið  sótölvaður.

En hvað ef það var alls ekki um neitt slys að ræða? Getur verið að áreksturinn hafi verið skipulagður af konungsfjölskyldunni til þess að taka Díönnu og Dodi úr umferð? Var samband Díönnu og Dodi í óþökk fjölskyldunnar eða getur verið að pólitísk barátta Díönnu, til dæmis barátta hennar gegn jarðsprengjum, hafi verið það sem kom henni í koll?

Þetta og margt fleira í nýjasta þættinum af Álhattinum. Þar sem Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór ræða sviplegt andlát Díönnu prinsessu og velta fyrir sér spurningum á borð við: Var ökumaðurinn raunverulega drukkinn eða var hann nánast bláedrú? Hvernig stendur eiginlega á því að allar öryggismyndavélar til og frá göngunum voru bilaðar? Er hægt að keyra bíl eftir kolmonoxíðeitrun? Var Díanna ólétt af barni Dodi Fayed og hvað hefur trú Dodi Fayed mögulega með málið að gera?

Til að gefa lesendum smjörþef af því sem í vændum er má nefna að samsæriskenningarsinnar hafa bent á að ökumaður bílsins, Henri Paul, hafi verið gífurlega efnaður sem sé í hróplegu ósamræmi við starf hans. Mögulega  hafi Henri verið að vinna fyrir leyniþjónustu Bretlands, MI6, og hafi verið narraður til að taka að sér aksturinn að goldið það með lífinu. Þessi kenning hefur þó ekki tekist að sanna. Eins hefur verið bent á blóðsýni úr Henri, en meint ölvun hans hafi ekki komið heim og saman við upptökur af honum þetta kvöld, þar sem hann virtist alsgáður, og akandi. Eins hafi fundist um 12,8 prósent af kolmonoxíði í blóði hans sem samsæriskenningarsmiðum þótti gífurlega grunsamlegt. Á móti hefur þó verið bent á að hefðbundnir reykingamenn eru gjarnan með 10 prósent gildi í sínu blóði. Annað próf hafi þó sýnt 20,7 prósent styrk, sem myndi þýða að  nokkrum tímum áður hefði gildið verið 40 prósent en við slíkt gildi gæti Henri ekki hafa ekið bifreið.

Kenningarnar og meint sönnunargögn samsæriskenningarsinna eru fjölmörg. En halda þau vatni?