Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Tjáir sig um skyndi­legt frá­fall föður síns: „Hann vissi að eitt­hvað væri að“

Ben Tozer er kannski ekki þekktasta nafnið í boltanum en hann hefur þó gegnt lykil­hlut­verki, sem fyrir­liði Wrex­ham, í upp­gangi fé­lagsins undir eignar­haldi Hollywood stjarnanna Ryan Reynolds og Rob McEl­henn­ey. Wrex­ham tryggði sér á síðasta tíma­bili sæti í ensku deildar­keppninni á nýjan leik með því að vinna ensku utan­deildina.

Þegar að titillinn fór á loft hjá Wrex­ham, á heima­velli fé­lagsins The Racecour­se Ground, var faðir Ben Tozer á svæðinu og horfði hann á son sinn vinna þetta glæsta af­rek.

Það var í apríl fyrr á þessu ári en Keith Tozer, faðir Ben, lagði á sig um 800 kíló­metra leið frá heima­bæ sínum Plymouth til Wrex­ham til þess að verða vitni að af­reki sonar síns.

En það var í miðjum fagnaðar­látunum á The Racecour­se Ground sem Ben áttaði sig á því að eitt­hvað amaði að föður hans.

„Hann átti það til að mæta á leiki hjá mér, leggja á sig þessa leið, en var alltaf farinn aftur til baka áður en ég yfir­gaf völlinn,“ segir Ben Tozer í opin­skáu við­tali við BBC. „Það kveikti á við­vörunar­bjöllum hjá mér. Ég vissi að hann hafði haft það betra og það var eins og hann væri að fela sig frá mér. Og ég veit núna af hverju.“

"The last time I spoke with him, the last words we said was 'I love you'."

Wrexham captain Ben Tozer opens up on the loss of his father, who regularly made the 500 plus mile round trip from his home in Plymouth to north Wales to watch him in action.#BBCFootball

— BBC Sport Wales (@BBCSportWales) September 25, 2023

Reyndist of seint

Að­stand­endur Keith Tozer höfðu tekið eftir því, mánuðina fyrir leikinn sögu­fræga hjá Wrex­ham, að ekki væri allt með felldu hjá honum.

„Bróðir minn tók eftir því, konan mín tók einnig eftir því. Pabbi sagðist alltaf ætla að fara láta kíkja á sig á heilsu­gæslunni en þegar að hann loksins gerði það var það of seint.“

Keith Tozer var greindur með hvít­blæði og að­eins nokkrum dögum eftir greininguna lét hann lífið.

„Ég æfði með Wrex­ham þennan dag, tók svo lestina til Plymouth og rétt náði honum áður en hann lét lífið.“

Ben Tozer segir stuðninginn sem hann fékk frá Wrex­ham, sér í lagi þjálfara liðsins Phil Parkin­son, vera ó­metan­legan. En á þessum tíma gaf hann sér ekki mikinn tíma til að syrgja.

Brotnaði saman í Bandaríkjunum

Skömmu eftir and­lát föður síns, fyrir jarðar­för hans, hélt Tozer með Wrex­ham til Banda­ríkjanna þar sem liðið undir­bjó sig fyrir yfir­standandi tíma­bil. Það var þar sem Ben Tozer fann fyrst fyrir sorginni, skömmu fyrir æfingar­leik Wrex­ham við Chelsea í Norður-Karó­línu.

„Ég var að hita upp. Það hefur enginn séð þetta og ég er að tjá mig um þetta í fyrsta skipti núna. Ég komst í upp­nám og tárin byrjuðu bara að streyma niður.

Ég fór allt í einu að hugsa um að ef pabbi væri á lífi, þá væri hann að fara horfa á leikinn gegn Chelsea.“

Um leið og Wrex­ham sneri aftur til Wa­les hélt Ben Tozer til Plymouth þar sem hann var við­staddur jarðar­för föður síns. Hann segist enn ekki hafa áttað sig að fullu á þeirri stað­reynd að faðir hans sé látinn.

„Það er erfitt fyrir mig að segja þetta en faðir minn var hræddur. Hann var hræddur við að heyra hvað amaði að sér. Hann vissi að eitt­hvað væri að.“

Ben Tozer nýtir tæki­færið og hvetur fólk til þess að láta kanna á sér stöðuna ef því líður ekki vel og telur að eitt­hvað ami að sér.