Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Sigurtillagan mjög sannfærandi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að sigurtillaga sænsku arkitektastofunnar Fojab um þróun Keldnalands sé mjög sannfærandi.

„Auðvitað settum við mjög metnaðarfull markmið. Við viljum nýtt, fullgilt hverfi og við vitum að Miklabrautin og Vesturlandsvegurinn sem eru þarna við hliðina á eru sprungin, eins og allir sem eru í morgunumferðinni vita. Þarna þarf að tefla fram nýrri hugsun og samgöngulausnum sem ganga upp þannig að þetta tryggi lífsgæði, nýti grænu svæðin og svo framvegis og það gerir þessi tillaga,” sagði Dagur í Ráðhúsi Reykjavíkur eftir að hann tilkynnti um hvaða tillaga bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni.

Að sögn Dags byggir tillagan mikið á tilkomu borgarlínunnar sem leysi mikið af samgöngumálunum en þó sé í henni lögð áhersla á mjög fjölbreyttar samgöngur.

„Þetta er gert á sannfærandi hátt, ekki bara sem verkfræðilegt viðfangsefni heldur til að búa til aðlaðandi hverfi. Þegar maður sér myndirnar og skipulagið þá langar mann svolítið að búa þarna vegna þess að þetta lítur mjög vel út,” greindi Dagur frá.

„Ég held að þetta muni tala inn í hjörtun á mjög mörgum,” bætti hann við.  

Miðað við tillöguna gætu búið á svæðinu að minnsta kosti 15 þúsund manns.

„Núna fer í gang hið formlega skipulagsferðalag á grundvelli tillögunnar og við munum eiga samtal við borgarbúa og þróunaraðila og aðila sem vilja vera þarna með verslun,” sagði hann.

mbl.is