Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Rýmum fjölgað í dagdvöl Ísafoldar

Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt að fjölga dagdvalarrýmum á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ úr 20 rýmum í 30.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Garðabæ og Hrafnistu.

Þar segir að fjölgunin hafi mikla þýðingu fyrir starfsemina sem sé mikið notuð. 

Almenn rými verða 22 en voru áður 16 og sérhæfð rými fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóm fara úr fjórum í átta.

Ísafold er ein af mikilvægustu stoðþjónustum fyrir eldra fólk í Garðabæ, en í húsinu rekur Garðabær þjónustumiðstöð fyrir stuðnings og öldrunarþjónustu bæjarins og Hrafnista rekur hjúkrunarheimili og dagdvölina.

Á fundi bæjarráðs á þriðjudag var samþykki Sjúkratrygginga tekið fyrir og bæjarráð lýsti sérstakri ánægju með fjölgunina í fundargerð sinni.

„Garðabær hefur unnið ötullega að því ásamt Hrafnistu að fjölga rýmum. Það er gleðilegt að ráðherra og Sjúkratryggingar hafi orðið við því. Okkur þykir einna vænst um að þarna fjölgar rýmum fyrir einstaklinga með heilabilun og ekki er vanþörf á slíkum rýmum,“ er haft eftir Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar í tilkynningunni og tekur María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistu, undir orð hans. 

mbl.is