Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Mót­vægis­að­gerðir megi ekki gleymast þó að­lögun sé hafin

Skýrslan loftslagsþolið Ísland var kynnt í gær og er hún afrakstur stýrihóps sem umhverfisráðherra skipaði. Hópnum var falið að meta hvaða skref þurfi að taka til að aðlaga megi samfélagið að loftslagsbreytingum.

Skýrslan er unnin út frá þeirri staðreynd að loftslagsbreytingar séu orðnar að veruleika. Þar kemur fram að öfgakenndari úrkoma, fleiri skriður og aukin flóðahætta sé meðal þess sem blasir við Íslendingum á næstu árum.

Huga þarf að fjölmörgum þáttum samkvæmt skýrslunni og meðal annars þarf að skoða vátryggingakerfið vegna tjónahættu. Fjórar forgangsaðgerðir eru hins vegar lagðar til sem snúa fyrst og fremst að upplýsingaöflun og miðlun gagna. Forseti Ungra umhverfissinna segir þetta góða byrjun en stjórnvöld ekki mega gleyma mótvægisaðgerðum.

„Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á því að neyðarástand ríkir í loftslagsmálum á heimsvísu. Til að bregðast við þessu neyðarástandi þá þurfum við að grípa til mun harðari mótvægisaðgerða sem forvarnir til að takmarka þörfina fyrir aðlögun,“ segir Finnur Ricart Andrason, forseti Ungra umhverfissinna.

Næst þurfi að grípa til aðgerða sem bæði draga úr losun og hjálpa okkur að aðlagast þeim breytingum sem eru óhjákvæmilegar. Þá þurfi að tryggja að stjórnsýslan geti tekist á við þetta verkefni, sem Finnur segir hana ekki vera í dag.

„Við þurfum að tryggja nægt fjármagn í þennan málaflokk. Ef við lítum á fjárlagafrumvarpið núna þá er alls ekki sett nægt fjármagn í loftslagsmálaflokkinn í því,“ segir Finnur. 

Ísland sé að gera ýmislegt í þessum málaflokki og aðgerðaáætlun um samdrátt í losun en hún sé alls ekki nógu róttæk. Grípa þurfi til hraðari og meiri aðgerða.

„Hvort ég sé vongóður að stjórnvöld forgangsraði á þennan hátt, að þau grípi til hraðari og róttækari strax er ég ekkert rosalega vongóður um það.“