Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Mikið áfall fyrir íbúa spænsks bæjar – 20 stúlkur fórnarlömb

Íbúar í spænska bænum Almendralejo eru í áfalli og spyrja sig hvernig það gat gerst að 20 stúlkur á aldrinum 11 til 17 lentu í klóm óprúttinna pilta sem birtu nektarmyndir af þeim á Internetinu.

En nektarmyndirnar voru aldrei teknar. Piltarnir, sem eru á aldrinum 12 til 14 ára, tóku myndir af samfélagsmiðlasíðum stúlknanna og notuðu gervigreindarforrit til að breyta þeim og sýna stúlkurnar naktar. BBC skýrir frá þessu.

Myndunum var dreift á samfélagsmiðlum og eru meðal annars í dreifingu á Telegram og WhatsApp.

Lögreglan er að rannsaka málið og hefur rakið slóðina til að minnsta kosti 11 pilta sem eru allir frá bænum og næsta nágrenni hans.

Lögreglan telur að reynt hafi verið að kúga eina stúlkuna með því að hóta að birta myndir af henni.

Sumir af piltunum eru undir sakhæfisaldri en hann er 14 ár á Spáni. Auk þess er ekki ljóst hvort hægt er að refsa piltunum því það eru göt í löggjöfinni þegar kemur að því að eiga við klámefni sem er búið til með gervigreind. BBC segir að ekki sé útilokað að piltarnir verði ákærðir fyrir framleiðslu á barnaklámi.