Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Líklega um „fordæmisgefandi úrskurði að ræða“

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, gerir ráð fyrir að niðurstaða kærunefndar útlendingamála í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela sé fordæmisgefandi úrskurður. 

Morg­un­blaðið greindi frá því í morg­un að kær­u­nefnd­in hefði staðfest álit Útlend­inga­stofn­un­ar um að um­sækj­end­ur um alþjóðlega vernd frá Venesúela njóti ekki leng­ur sjálf­krafa vernd­ar hér á landi.

Úrskurðir í einstaklingsmálum

„Þessi úrskurðir eru auðvitað í einstaklingsmálum, en maður svona gerir því skóna að þarna sé um fordæmisgefandi úrskurði að ræða. Þannig að fólk frá Venesúela fái ekki sjálfkrafa viðbótarvernd,“ segir Guðmundur sem ítrekar að unnið sé með hvert mál og því verði að koma í ljós hvað fylgir á eftir. 

Spurður hvort um sé að ræða breytingu í afstöðu gegn útlendingum bendir Guðmundur á að mjög hátt hlutfall þeirra sem koma frá Venesúela sé að vinna. 

„Yfir 85% þeirra sem hafa verið hér í þrjú ár eru að vinna. Það er hærra hlutfall en á meðal innfæddra Íslendinga. Þetta er hópur sem virðist aðlagast mjög vel hvað það varðar, að fá vinnu. Þannig að ég hef ekki heyrt annað en að það hafi allt saman gengið mjög vel.“

Áhyggjur af aukinni hatursorðræðu

Guðmundur bindur þó vonir við að umræða um útlendingamál fari að breytast enda hafi hún oft verið mjög neikvæð og þá sérstaklega í garð flóttafólks. 

„Ég hef áhyggjur af aukinni hatursorðræðu gagnvart flóttafólki og hinsegin fólki. Ég vil ekki lifa í þannig samfélagi.“

mbl.is