Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Lík­­lega mjög miklir fólks­flutningar“ til Venesúela fram­undan

Í þremur úrskurðum sem voru kveðnir upp í vikunni og birtir í dag segir að ástandið fari batnandi í Venesúela og að aðstæður séu ekki slíkar að þær réttlæti að allir sem þaðan komi eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Á fyrstu átta mánuðum ársins sóttu hátt í þrjú þúsund manns um alþjóðlega vernd hér á landi og þar af voru flestir, eða hátt í þrettán hundruð, frá Venesúela.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ræddi úrskurðina í Kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við erum loksins komin með skýra niðurstöðu og ég ætla ekki að fara í grafgötur með það að við erum búin að bíða lengi eftir niðurstöðum kærunefndar útlendingamála. Og það er alveg ljóst að niðurstaðan frá þessum þremur málum, hún verður fordæmisgefandi,“ sagði Guðrún, aðspurð hver hennar viðbrögð við úrskurðunum væru. 

Guðrún segir fjögur hundruð mál bíða niðurstöðu hjá kærunefndinni og ellefu hundruð hjá Útlendingastofnun. „Þannig að þetta eru að lágmarki fimmtán hundruð einstaklingar sem þessi niðurstaða mun hafa áhrif á. Og eins og ég sagði þá gerum við ráð fyrir að niðurstaða kærunefndarinnar í gær verði fordæmisgefandi. Það þýðir það að um fimmtán hundruð manns munu að öllum líkindum fá neitun um viðbótarvernd hér á Íslandi og þurfa þar af leiðandi að yfirgefa landið.“

Hvað tekur við gagnvart þessu fólki?

„Þetta verður auðvitað umfangsmikið verkefni og við höfum þegar hafið vinnu við það. Við erum þegar byrjuð að ræða við Útlendingastofnun, Ríkislögreglustjóra, stoðdeildina og svo Dómsmálaráðuneytið, hvernig við högum okkur í þessu máli. Það verða líklega mjög miklir fólksflutningar héðan til Venesúela og það verður að tryggja að það muni ganga vel og að fólk fái farsæla heimför,“ sagði Guðrún. 

„Til þess munu íslensk stjórnvöld gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þetta geti gengið greiðlega fyrir sig. Það mun þýða að íslensk stjórnvöld munu aðstoða fólk og sjá til þess að fólk fái farsæla til Venesúela sem og mun fólk njóta heimferðarstyrkja til þess að aðstoða fólk við að koma sér fyrir á ný í heimalandinu,“ bætti hún við.