Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Landsliðið í sjónvarpsmálum“ leitar enn að bilun

Rannsókn stendur enn yfir á því hjá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn hvers vegna rafmagnsleysi varð með þeim afleiðingum að enginn kvöldfréttatími Stöðvar 2 fór í loftið á þriðjudaginn.

„Það er búið að fara í margar aðgerðir síðan atvikið átti sér stað. Við erum búnir að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir sem verða vonandi til þess að þetta gerist aldrei aftur,” segir Páll Jónsson, forstöðumaður fjölmiðlalausna hjá Sýn, spurður út í stöðu mála.

Hann bætir við að orsökin fyrir því hvað gerðist sé ekki ljós. Rafmagnið fór upphaflega af eftir háspennubilun hjá Veitum.

„Við erum með tvöföld kerfi og varaafl og varabatterí og alls konar á staðnum nú þegar. Það virkaði, en af hverju við missum rafmagnið út er verið að rannsaka.”

Að sögn Páls er „landsliðið í sjónvarpsmálum” að reyna að finna út hvað gerðist ásamt helstu ráðgjöfum sem fyrirfinnast.

Spurður segir hann jafnframt að kvöldfréttatíminn í gær hafi gengið eins og í sögu.

Engar truflanir hjá Símanum

Húsnæði Símans er stutt frá húsnæði Sýnar en engar truflanir urðu á starfseminni þar, hvorki í fjarskipta- né sjónvarpsþjónustu, þrátt fyrir að rafmagn hafi farið af húsakynnunum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þjónustuverið okkar sem var opið á þessum tíma varð einnig ekki fyrir neinum truflunum þökk sé vararafstöð og varaaflgjöfum sem hrökkva í gang fari rafmagn af húsnæði Símans,” segir í Guðmundur Jóhansson, samskiptafulltrúi Símans.

mbl.is