Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Kannski ekkert sérstaklega lýðræðislegt“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að það megi alltaf vona að fólk sjái ljósið.

Tilefnið er að þingflokkur Pírata leggur í annað sinn fram frumvarp um breytingar á lögreglulögum sem ekki fékk fram að ganga þegar það var áður lagt fram.

Fyrirmæli lögreglu þurfi að vera lögmæt

Breytingin á lögreglulögunum samkvæmt frumvarpinu snýr að því að lögregla þurfi að gefa almenningi lögmæt fyrirmæli svo honum sé skylt að framfylgja fyrirmælum hennar.

Þórhildur Sunnar segir frumvarpið lagt fram til þess að ítreka lögmætisreglu þá sem þarf að vera fyrir hendi í öllum ákvörðunum stjórnvalda en sé kannski stundum ekki gefin nægilega mikill gaumur þegar lagabókstafurinn segir í raun án fyrirvara að það verði að hlýða fyrirmælum lögreglu, eins og hún orðar það. Þannig sé þetta mikilvæga atriði ekki tekið til greina að fyrirmælin þurfi að vera lögmæt til að almenningi beri skylda til að hlýða þeim.

„Það er almennt þannig að stjórnarandstöðuflokkar fá engin af sínum málum í gegn nema það sé samið sérstaklega um það í lok þingvetrar. Algengustu örlög stjórnarandstöðumála er að þau sofni í nefnd ef þau komast yfir höfuð þangað.

Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þau komist ekki í gegn. Það er kannski ekkert sérstaklega lýðræðislegt en þetta er alla vega vaninn.

Miðað við viðbrögðin þegar frumvarpið var lagt fram síðast er ég ekkert gríðarlega bjartsýn en ég mun mæla fyrir þessu og ég mun aftur reyna að sannfæra þingheim um að þetta sé góð hugmynd.“

Skýr skerðing á réttinum til að mótmæla

Hún segir mjög mikilvægt að koma þessari breytingu í gegn þar sem fólk hefur verið sakfellt fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu sem má alla vega efast um að hafi verið lögmæt. Nefnir hún þar sem dæmi dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. S 349/2010 og S 16/2011 en í þeim var sami einstaklingur tvisvar sakfelldur fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga. Í báðum tilvikum hafði hann haft í frammi mótmæli fyrir framan sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík.

Mótmælin fólust í því að hann stóð fyrir utan sendiráðið, nálægt inngangi þess, en þó ekki þannig að af honum væri nein sérstök truflun. Þegar hann neitaði að láta af mótmælunum og færa sig frá sendiráðinu var hann handtekinn og síðar sakfelldur fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að í þessum málum hafi mátt sjá að mótmælandinn truflaði ekki eða hafði áhrif á starfsemi sendiráðsins að neinu leyti en hafi verið sakfelldur þrátt fyrir það. Verði það að teljast skýr skerðing á réttinum til að mótmæla.

mbl.is