Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Kamala Harris í vanda

Það styttist í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum en þær fara fram eftir rúmt ár. Vangaveltur eru uppi innan Demókrataflokksins hvort Kamala Harris, varaforseti, sé rétti valkosturinn þegar Joe Biden velur varaforsetaefni sitt.

Svo virðist sem Harris njóti ekki mikils stuðnings innan Demókrataflokksins því áhrifamiklir Demókratar eru hikandi þegar kemur að því að svara hvort hún sé besta manneskja í varaforsetaembættið.

Eins og áður snýst málið um hvort hún sé rétta manneskjan til að standa við hlið Biden í næstu forsetakosningum.

Áður höfðu nokkrir einstakir meðlimir í Demókrataflokknum verið hikandi við að segja hana réttu manneskjuna þegar þeir hafa verið spurðir út í það. Nú hafa nokkrir af áhrifamestu Demókrötunum bæst í þennan hóp.

Nýlega spurði Anderson Cooper, hjá CNN, Nancy Pelosi, fyrrum formann fulltrúadeildar þingsins, um hvort Harris sé rétta manneskjan til að standa við hlið Biden. Í staðinn fyrir að svara spurningunni á skýran hátt sagði Pelosi að það sé hlutverk Biden að velja hvern hann vill hafa við hlið sér þegar kemur að forsetakosningunum. „Ef hann telur að það eigi að vera hún (Kamala Harris, innsk. blaðamanns) þá er það það sem skiptir máli,“ sagði hún.

Pelosi, sem er vel við aldur, býður sig fram í næstu þingkosningum, sem fara fram samhliða forsetakosningunum. Þrátt fyrir háan aldur er hún mjög áhrifamikil innan flokksins.

Hún hrósaði Harris í viðtalinu og sagði hana vera duglegan og snjallan stjórnmálamann. „Mér finnst hún ekki fá þá viðurkenningu sem hún á skilið. Stefnumál hennar eru þau sömu og forsetans,“ sagði Pelosi.

Ekki er langt síðan Jamie Raskin, þingmaður Demókrata, hikaði við svara þessari sömu spurningu um Harris þegar hann ræddi við fréttamann CNN. „Það er ákvörðun Joe Biden forseta,“ sagði hann.