Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

HR frestar hvalafundi

Fundi um hvalveiðar sem hafði yfirskriftina „Vísindi og lagaleg álitamál“ sem Sjálfbærni- og loftslagsréttarstofnun Háskólans í Reykjavík hafði boðað til á morgun, föstudag, hefur verið frestað um sinn.

Fundinum var frestað í kjölfar fyrirspurnar Morgunblaðsins um frummælendur. Þetta staðfestir Snjólaug Árnadóttir, forstöðumaður stofnunarinnar og lektor við lagadeild skólans, í samtali við Morgunblaðið.

Til stóð að ræða helstu álitamálin varðandi veiðarnar, en Snjólaug átti að stýra umræðum á fundinum.

Yfirlýstur andstæðingur hvalveiða

Áður en tekin var ákvörðun um frestun fundarins hafði Morgunblaðið samband við Snjólaugu og spurðist fyrir um val á frummælendum, en skv. dagskránni áttu þeir að vera þrír; dr. Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði, sem fjalla átti um hvali í vistkerfi sjávar, Jóna Þórey Pétursdóttir, lögmaður á lögmannsstofunni Rétti, sem ræða átti um stöðu hvalveiða í íslenskum rétti, og Ingi B. Poulsen, doktorsnemi við lagadeild HR, sem fjalla átti um hvalveiðar og skuldbindingar ríkisins að loftslagsrétti.

Athygli vakti að dr. Edda Elísabet skyldi hafa verið fengin til að vera einn frummælenda, en hún er yfirlýstur andstæðingur hvalveiða og hefur tekið þátt í mótmælum gegn hvalveiðum, síðast á Austurvelli um miðjan júlí sl. Þá er Jóna Þórey Pétursdóttir starfandi á lögmannsstofunni Rétti sem hefur gætt hagsmuna ýmissa aðila gegn Hval hf. og hafa löglærðir starfsmenn stofunnar verið áberandi á þeim vettvangi undanfarin misseri.

Salurinn ekki nógu stór

Spurð um hvort skoðað yrði út frá faglegum sjónarmiðum lagadeildarinnar að hafa ekki einungis andstæðinga hvalveiða í hópi frummælenda sagði Snjólaug að málið yrði skoðað betur í ljósi framkominna upplýsinga.

Við vinnslu fréttarinnar hafði Snjólaug samband við Morgunblaðið og kunngjörði að fundinum hefði verið frestað. Um ástæður frestunarinnar sagði Snjólaug að í ljósi þess að fréttir væru farnar að kvisast út um fyrirhugaðan fund væri fyrirséð að fundarsalurinn þar sem halda átti fundinn myndi ekki duga fyrir þann fjölda áheyrenda sem vísast myndu mæta til fundarins.

Einnig sagði hún að uppi væru áform um að endurskoða hverjir myndu vera frummælendur á fundinum, með það í huga að koma að fleiri sjónarmiðum varðandi hvalveiðarnar en þeirra einna sem væru yfirlýstir andstæðingar veiðanna.