Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Heilbrigðisráðherra skipar Geðráð

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Geðráð. Í ráðinu eiga sæti fulltrúar stjórnvalda, notenda geðheilbrigðisþjónustu, aðstandenda og fagfólks sem fjalla um málaflokkinn. 

Segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að með þessu eigi að tryggja aðkomu helstu haghafa að stefnumótun, umbótum og þróun á sviði geðheilbrigðismála og geðheilbrigðisþjónustu. Formaður ráðsins er Páll Matthíasson.

„Stofnun Geðráðs markar tímamót. Það er almennur vilji til þess að geðheilbrigðisþjónusta verði í vaxandi mæli notendamiðuð og valdeflandi og ég tel að með öflugu geðráði sé ýtt undir frekari þróun í þá átt,“ er haft eftir heilbrigðisráðherra í tilkynningunni.

Áherslur þátttakenda á geðheilbrigðisþingi 2020

Áherslur þátttakenda á geðheilbrigðisþingi 2020 Ljósmynd/Stjórnarráðið

Áhersla á notendasamráð

Ráðuneytið segir að ein af megináherslum stefnu í geðheilbrigðismálum lýti að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Þetta samráð hafi verið formgert í aðgerðaáætlun um framkvæmd geðheilbrigðisstefnu til ársins 2027, sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Ein aðgerðanna felst í stofnun Geðráðs sem nú hefur verið sett á fót.

Geðráð skal vera heilbrigðisráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumörkun í geðheilbrigðismálum. Það skal fylgjast með þróun og áherslum geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og á alþjóðavísu og hafa yfirsýn yfir stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og í samanburði við önnur lönd, segir í umfjöllun ráðuneytisins.

Enn fremur skal það fylgjast með framgangi gildandi aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum. Heilbrigðisráðherra getur falið geðráði verkefni sem snúa að greiningu, þróun eða útfærslu geðheilbrigðisþjónustu sem auka virði og gæði hennar fyrir notendur og aðstandendur.

Starfsemi Geðráðs:

 • Geðráð setur sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir. 
 • Ráðið fundar reglulega, þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega og skilar heilbrigðisráðherra skýrslu í desember ár hvert, með tillögum um áherslur verkefna næsta árs.
 • Geðráði er heimilt með samþykki heilbrigðisráðherra að stofna smærri vinnuhópa eða faghópa um einstök verkefni sem því eru falin af heilbrigðisráðherra.

Geðráð skipa

 • Páll Matthíasson, formaður
 • Þuríður Harpa Sigurðardóttir, fulltrúi notendasamtaka eða félagasamtaka
 • Tómas Kristjánsson, fulltrúi notendasamtaka eða félagasamtaka
 • Sandra Björk Birgisdóttir, fulltrúi notendasamtaka eða félagasamtaka
 • Héðinn Unnsteinsson, fulltrúi notenda
 • Sigríður Gísladóttir, fulltrúi notenda
 • Grétar Björnsson, fulltrúi notenda
 • Ágúst Kristján Steinarsson, fulltrúi notenda
 • Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, fulltrúi embættis landlæknis
 • Sigurrós Jóhannsdóttir, fulltrúi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu
 • Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, fulltrúi annars stigs heilbrigðisþjónustu
 • Nanna Bríem, fulltrúi þriðja stigs heilbrigðisþjónustu
 • Gunnar Þór Gunnarsson, fulltrúi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins
 • Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, fulltrúi frá Háskóla Íslands
 • Gísli Kort Kristófersson, fulltrúi frá Háskólanum á Akureyri
 • Linda Bára Lýðsdóttir, fulltrúi frá Háskólanum í Reykjavík
 • Friðrik Már Sigurðsson, fulltrúi frá sveitarfélögum

Starfsmenn Geðráðs verða Helga Sif Friðjónsdóttir og Ingibjörg Sveinsdóttir.

mbl.is