Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Hann er ekki sekur“

Sjálfur talaði hinn 59 ára gamli Heuermann bara einu sinni, samkvæmt frétt CNN, og var það þegar dómarinn spurði hvort hann hefði getað farið yfir sönnunargögnin gegn honum í fangelsi. Hann sagðist verja tveimur til þremur tímum á dag í að fara yfir gögnin.

Þegar hann yfirgaf dómsalinn í gær, er Heuermann sagður hafa litið um öxl með bros á vör.

Heuermann var handtekinn í júlí. Lögregluþjónar gerðu umfangsmikla húsleit á heimili hans og Ásu Ellerup, íslenskri eiginkonu hans, sem eiga saman eina dóttur og hann á son úr fyrra hjónabandi. Þau eru bæði 59 ára gömul en fram kom í ákærunum gegn Heuermann að þegar hann er grunaður um hafa myrt konurnar þrjár var Ása ekki heima. Í einu tilviki var hún á Íslandi.

Ása sótti um skilnað etir að hann var handtekinn og sagði hún fyrr í mánuðinum að lífi hennar og krakkanna hefði verið snúið á hvolf.

Við leit að týndri konu í Gilgo Beach árið 2010, fundust lík fjögurra kvenna sem höfðu horfið á undanförnum árum. Heuermann er grunaður um að hafa myrt þær allar en er nú ákærður fyrir að myrða þrjár þeirra.

Konurnar þrjár sem Heuermann hefur verið ákærður fyrir að myrða hétu Melissa Barthelemy, sem hvarf árið 2009 og Megan Waterman og Amber Costello, sem hurfu árið 2010. Fjórða konan, sem hann er grunaður um að hafa myrt hét Maureen Brainard-Barnes en hún hvarf árið 2007.

Síðar fundust fleiri líkamsleifar á svæðinu sem ekki hefur tekist að tengja við mál Heuermann. Morð þessi hafa gengið undir nafninu „Morðin á Gilgo Beach“ og hafa vakið gífurlega athygli vestanhafs.

Sjá einnig: Grunaður raðmorðingi giftur íslenskri konu

Rannsókn vegna þessara líka lá lengi í dvala en sérstakt rannsóknarteymi var stofnað fyrir tveimur árum. Rannsakendur beindu í fyrstu sjónum sínum að umfangsmiklum símagögnum sem á endanum leiddu þá á spor Heuermann. 

Vill gögn um lífsýni

Í dómsal í gær sögðust saksóknarar hafa sent meira en tíu terabæt af gögnum til lögmanns Heuermann í ágúst, sem þeir þyrftu að fara yfir áður en réttarhöldin hefjast. Þetta ku vera um átta þúsund blaðsíður af gögnum eins og vitnaleiðslum, minnisblöðum frá lögregluþjónum og myndir.

Lögmaðurinn segist þó ekki hafa fengið öll þau gögn sem þeir eiga að fá. Þar á meðal séu upplýsingar um lífsýni.

Michael Brown, lögmaður Heurermann, sagði fyrir utan dómshúsið í gær að þær upplýsingar væru mikilvægar fyrir vörn hans og hélt því fram að þúsundir ofan á þúsundir af öðrum hefðu getað átt hárið sem fannst á einu líkanna.

„Hann er ekki sekur“

Brown sagðist einnig hafa sagt Heuermann að sýna ekki tilfinningar og láta ekkert koma sér úr jafnvægi. Var Brown þar að bregðast við ummælum fógeta Suffolk-sýslu um að Heuermann hefði ekki sýnt tilfinningar eftir að hann var handtekinn.

„Hann er maður sem var í vinnu, hefur aldrei verið handtekinn, á eiginkonu og börn og var virkur meðlimur í samfélaginu. Augljóslega hefur saksóknarinn og yfirvöld lagt fram þessar hræðilegu ásakanir,“ sagði Brown.

„Hann er ekki sekur. Nú þarf hann að sitja í varðhaldi, vera án fjölskyldu sinnar, frá eiginkonu sinni og börnum. Hann getur ekki unnið. Getur ekki séð fyrir fjölskyldu sinni og stutt þau og þarf að sitja í fangaklefa þar til þetta getur gerst.“

Næst mun Heuermann mæta í dómsal þann 15. nóvember en ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöldin sjálf munu hefjast.