Mynd tekin úr dróna af laxastiga í Laugardalsá.

Hafrannsóknastofnun hefur óskað eftir því að Samráðnefnd um fiskeldi fresti frekari umfjöllun um áhættumat erfðablöndunar þar til endurskoðun áhættumatsins liggur fyrir.

Í ljósi nýlegra atburða, þar sem eldislaxar sluppu úr eldiskví og leita nú upp í ár þar sem fyrir eru villtir laxastofnar, hefur stofnunin ákveðið að þörf sé á að endurskoða áhættumat erfðablöndunar.

Í drögum af áhættumati erfðablöndunar var ekki gert ráð fyrir eins umfangsmiklu magni af kynþroska eldisfiski í ár landsins.

Ljóst er að þær forsendur sem stofnunin hefur gengið út frá þarfnast endurskoðunar segir í frétt Hafrannsóknastofnunar.

Stofnunin óskaði eftir því að nefndin frestaði frekari umfjöllun um áhættumatið þar til endurskoðun liggur fyrir. Endurskoðunin verður gerð svo fljótt sem verða má og þegar umfang og afleiðingar skýrast.