Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Framsókn í verki – Hálfleikur

Nú eru tvö ár liðin af yfirstandandi kjörtímabili og við erum stödd í hálfleik. Við komum sterk inn í seinni hálfleik og erum bjartsýn á að þau verkefni sem við fáum í hendur verði unnin af heilindum og krafti. Framsókn hefur setið í sjö ár í ríkisstjórn og við höfum haft samvinnu að leiðarljósi í samstarfi þriggja flokka í ríkisstjórn, þar sem ólík sjónarmið koma saman og þá oftar en ekki fæðist besta lausnin. Í hálfleik er farið yfir leikinn, hvar tækifærin liggja, hvað má betur fara og hvert skal stefna.

Unnið að festu

Verkefni núverandi ríkistjórnar hafa verið allskonar síðustu sjö ár. Það þarf ekki að fara nánar út í þau óvæntu sem voru auðvitað mest áberandi en þau hefðbundnu voru og eru krefjandi líka. Veigamiklar breytingar hafa litið dagsins ljós og má í því sambandi nefna breytingar sem Ásmundur Einar Daðason kom á, á síðasta kjörtímabili sem snúa að umbreyttri stjórnsýslu hvað viðkemur málefnum barna, t.a.m. framkvæmdaráætlun í barnavernd sem ætlað er að fjölga úrræðum fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Einnig hafa orðið breytingar á húsnæðiskerfinu og þar komið fram með sveigjanleg úrræði sem skila sér í því að nú er verið að byggja húsnæði um land allt, en stofnframlög Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafa nýst í sveitafélögum til framkvæmda. Áfram skal unnið á þeim vettvangi því áframhaldandi uppbygging húsnæðis fyrir tekju- og efnaminni eru forgangsmál næstu ára. Áfram á að þróa hlutdeildarlán til að ná betri markmiðum sínum fyrir fyrstu kaupendur og tekjulága. Endurskoðun húsaleigulaga stendur nú yfir á vegum starfshóps innviðaráðherra. Markmiðið er að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda í samræmi við áherslur sem fram koma í ríkisstjórnarsáttmálanum.

Áfram veginn

Vegaframkvæmdir hafa verið áberandi og áfram skal halda enda mikil þörf á viðhaldi vega og nýframkvæmdum vegna aukins umferðarþunga. Breytt samfélagsmynd, stækkun atvinnusvæða og ekki síst aukinn ferðamannastraumur kallar á nútímavegi um allt land. Áhersla innviðaráðherra, Sigurðar Inga, á forgang við að byggja upp vegakerfið á Vestfjörðum er staðreynd og sést vel þegar ekið er um fjórðunginn. Fyrr en varir verður hringvegur 60 allur á bundnu slitlagi sem Vestfirðingar hafa lengi mátt bíða eftir. Við vitum öll að mikið er eftir enn, en þetta eru engu að síður risaskref í rétta átt. Til þess að setja hlutina í samhengi þá voru samanlögð útgjöld í nýframkvæmdir á vegunum á vestursvæði síðustu sjö ár um 30 milljarðar.

Heilbrigðisþjónusta

Willum Þór Þórsson hefur á sl. tveimur árum látið hendur standa fram úr ermum, við sem þekkjum hann vitum að það skiptir máli að koma sterkur inn á völlinn.

Langþráður langtímasamningur við sérgreinalækna var undirritaður í júní sl. og þar með var þeirri óvissu eytt en með samningunum má áætla að greiðsluþátttaka almennings lækki um allt að þrjá milljarða króna á ári. Greiðsluþátttaka sjúklinga lækkaði líka þegar samningur um 700 liðskiptaaðgerðir utan sjúkrahúsa var gerður og sá samningur styttir biðtíma sjúklinga og tryggir aðgengi. Mikilvæg viðurkenning á stöðu kvenna með endómetríósu var staðfest þegar samningur um aðgerðir við Klíníkina var gerður. Tímamótasamningur um tannréttingar var einnig gerður opinber í lok júlí en styrkir vegna almennra tannréttinga höfðu haldist óbreyttir í tuttugu ár.

Kastljósið á alltaf að vera á að tryggja góða heilbrigðisþjónustu um allt land. Verkefnin eru mörg, bæði við að tryggja þjónustu, viðhalda mannauði og fagþekkingu um land allt. Ekki síst þarf að byggja áfram undir fjarheilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og þar skipta vegabætur og vetrarþjónusta miklu máli.

Menning er menntun

Lilja Dögg Alfreðsdóttir hefur í ráðuneytum sínum sett á dagskrá og komið í gegn mikilvægum málum. Nú eru lög um Menntasjóð tveggja ára og þroskast vel í verki en hér er um að ræða  heildarendurskoðun námslánakerfisins sem miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Þessar breytingar eiga sér langan aðdraganda, fyrri menntamálaráðherrum hafði ekki tekist að koma þeim í gegn en Lilja Alfreðs fékk málið í sínar hendur og náði því áfram. Einnig hafa mál sem varða íslenskuna verið ofarlega á baugi og má þar t.a.m. nefna það verkefni að gera íslenskuna aðgengilega í snjalltækjum í samstarfi við alþjóðleg tæknifyrirtæki. Þar að auki hefur Lilja Dögg komið sterk inn sem viðskiptaráðherra og hefur unnið ötullega að neytendamálum eins og greiningu á gjaldtöku og arðsemi bankanna. Ekki síst hefur það reynst heilladrjúgt að vinna að því að hækka endurgreiðslu til stærri kvikmyndaverkefna í 35%. Kvikmyndaframleiðsla hér á landi blómstar nú sem aldrei fyrr og skiptir máli bæði fyrir iðnaðinn og menningu hér á landi.

Unnið að framsókn

Í seinni hálfleik skiptir máli hverjir draga vagninn, hverjir eru tilbúnir að vinna að heilindum að góðum málum í samvinnu og sátt. Stærsta verkefni komandi misseris verður að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta, sem er tilkomin af ýmsum ástæðum. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu komu af stað snjóbolta sem hleður utan á sig, ofan gefur snjó á snjó. En þar er líka um að ræða heimtilbúinn vanda.

Nú er bara best að bretta upp ermar. Við erum tilbúin í verkið.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar