Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Fleiri en tuttugu með Covid-19 á Landspítalanum

Síðustu tvær vikur hafa yfir tuttugu sjúklingar á Landspítalanum verið með Covid-19. Áhættuhópum verður boðið í örvunarbólusetningu og sóttvarnalæknir biðlar til almennings að gæta sóttvarna og jafnvel taka upp grímuna sé þess þörf.

Í sumar voru að meðaltali tíu sjúklingar á Landspítala í hverri viku með Covid-19. Fjöldinn hefur því tvöfaldast síðan þá, að sögn Guðrúnar.

„Þá er ég ekki að segja að þetta séu innlagnir vegna Covid, ég veit ekki nákvæmu greininguna á því. En þetta er augljóslega aukning frá því sem hefur verið,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir mbl.is/Hallur Már

Aukning um víða veröld

Guðrún segir að aukning smita að undanförnu komi ekki gríðarlega mikið á óvart, þar sem sérfræðingar telji að veiran hagi sér eins og aðrar öndunarfærasýkingar og færist því í aukana á haustin.

„Það var búist við aukningu í haust og við vissum náttúrulega ekkert hvenær,“ segir Guðrún og bætir við að jafnframt sjáist aukning í smitum af Rhínó-veiru, „sem er svona venjuleg kvefveira“. 

Segir hún þróunina svipaða annars staðar í Evrópu.

„Við fylgjumst náttúrulega grannt með því sem er í gangi sérstaklega í Evrópu. Það hafa verið sambærilegar aukningar þar í mörgum löndum, en alveg eins og hjá okkur þá er ástandið ekki eins vel skilgreint og það var áður.“

Boðið verður upp á nýja útgáfu af bóluefni Pfizer.

Boðið verður upp á nýja útgáfu af bóluefni Pfizer. AFP/Fred Tanneau

Áhættuhópum boðinn örvunarskammtur

Guðrún segir að fljótt verði áhættuhópum boðið upp á örvunarskammt.

„Það verður hægt að fá það í byrjun október,“ segir sóttvarnalæknir og nefnir að þeir sem geti fengið örvunarskammt séu einstaklingar sem séu 60 ára og eldri, fullorðnir og börn yfir fimm ára með langvinna sjúkdóma, og barnshafandi heilbrigðisstarfsfólk.

Bóluefnið sem um ræðir er uppfærð tegund af bóluefni lyfjarisans Pfizer og hvetur sóttvarnalæknir fólk til þess að þiggja boðið.

Jafnframt verður sömu hópum boðið upp á örvunarskammt gegn inflúensu, en það bóluefni á ekki að koma til lands fyrr en um miðjan októbermánuð.

Fólk er hvatt til þess að þiggja boð í örvunarbólusetningu.

Fólk er hvatt til þess að þiggja boð í örvunarbólusetningu. Kristinn Magnússon

Gott að nota grímur ef maður finnur fyrir einkennum

Guðrún hvetur því almenning til þess að gæta sóttvarna og jafnvel að nota grímur ef maður finnur fyrir einhverjum einkennum.

„Það á við um ákveðnar aðstæður, sérstaklega áhættuhópa og þá sem eru með einkenni en þurfa að vera eitthvað á ferðinni, að nota grímur. Þó á fólk auðvitað helst að halda sér heima ef það finnur fyrir einkennum,“ segir hún.

„Við hvetjum algjörlega til þess og bara sóttvarna almennt – eins og að halda fjarlægð og passa upp á hverja þú ert að umgangast.“

mbl.is