Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Fáum betri myndir frá Mars en úr þessum vélum“

Rannsóknarlögreglumaður sem kom að rannsókn Bankastræti Club-málsins segir að við rannsókn málsins hafi verið haft uppi á kylfu, stunguvestum og vasaljósi sem ætla mætti að hægt væri að nýta sem barefli.

Hins vegar fannst ekki hnífurinn sem notaður var þegar fórnarlömbin í málinu hlutu stungusár. Sá sem sakaður er um tilraun til manndráps segist hafa farið úr fötum og losað sig við hníf í ruslafötu. Annar sakborningur segir hins vegar að sér hafi verið réttur hnífur eftir árásina og hann hent honum frá sér í runna. 

Reyndu að greina fleiri vopn 

Verjandi þess sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps lagði nokkuð púður í það að fá svör við því frá lögreglumanninum hvort annar hnífur kynni að hafa verið notaður.

„Hvergi nokkurs staðar í myndbandinu, í ferlinu, sáum við fleiri en einn hníf. Hnífurinn var í raun mjög sýnilegur (inni á Bankastræti Club). Við reyndum eftir fremsta megni að greina fleiri vopn á myndbandi en það tókst ekki,“ segir lögreglumaðurinn.

Í umræðum um myndbandsgæði öryggismyndavéla í Bankastræti Club-málinu var mikið rætt um bjögun á myndskeiðum og myndgæði almennt. Var það meðal annars í tengslum við tilraunir verjanda til þess að reyna að sýna fram á að annar hnífur hafi verið notaður við árásina. 

Öryggismyndavél í miðbæ Reykjavíkur

Öryggismyndavél í miðbæ Reykjavíkur Kristinn Magnússon


Var lögreglumaðurinn beðinn um að sannreyna eitt og annað upp úr skjáskotum sem verjandi hafði tiltekið.  

„Ég veit það ekki. En ég veit bara að við fáum betri myndir frá Mars en úr þessum myndavélum," sagði lögreglumaðurinn að þessu tilefni og uppskar hlátur viðstaddra.

mbl.is