Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Fallþungi dilka góður í ár

Algengt er í sauðfjárslátrun haustsins nú að fallþungi dilka sé um hálfu kílói meiri en á síðasta ári. Að sögn stjórnenda sláturhúsa og kjötiðnaðarstöðva helgast þetta ekki síst af því að tíðarfar í sumar var gott og féð dafnaði því vel í heiðarlöndum og á afréttum.

Í sláturhúsi Kjarnafæðis-Norðlenska á Húsavík vegur hver dilkur í ár að meðaltali 17,22 kg borið saman við 16,67 kg í fyrra. Þarna munar 550 grömmum á hverja kind.

Í haust fær Kjarnafæði-Norðlenska afurðir af um 200.000 kindum frá fjórum sláturhúsum. Umsvifin eru líka mikil hjá Kaupfélagi Skagfirðinga og Sláturfélagi Suðurlands. Heildarfjöldi fjár sem slátrað er í ár nálgast hálfa milljón.

Steinþór Skúlason forstjóri SS segir stöðuna á lambakjötsmarkaði nú vera nokkuð góða. „Heilt yfir er markaður fyrir lambakjöt nú að nálgast gott jafnvægi hvað varðar framboð og eftirspurn sem aftur gaf svigrúm til að hækka afurðaverð til bænda,“ segir Steinþór.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.