Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Faðir segir Arnar hjá Betra líf leigja syni sínum óboðlegt húsnæði – „Á þetta fólk bara að vera úti á götu og deyja þar?“

Faðir 22 ára manns sem leigir herbergi í einbýlishúsi í Kópavogi af Arnari Gunnari Hjálmtýssyni eiganda Betra líf gagnrýnir aðstæður og óþrifnað í húsnæðinu og afskiptaleysi Arnars þegar kemur að leigutökum hússins, slæmt ástand hússins og skort á brunavörnum. Arnar vísar gagnrýninni á bug, segist ekki reka húsnæðið sem áfangaheimili og að leigutakar þurfi að þrífa sjálfir eigið heimili. Aðeins sé um að ræða tímabundna leigu þar sem húsnæðið verður rifið í vor. 

„Ég held að það sé mest af afspurn sem fólk fréttir af svona húsnæði, það vita allir fíklar af Draumasetrinu og það vita allir fíklar af Betra líf ef þú vilt vera í neyslu. Sonur minn bjó hjá Arnari í Efstasundi og var vakinn og sagt að hann yrði fluttur eftir klukkutíma í Kópavog og þá kom hann í þennan viðbjóð,“ segir Torfi Magnússon. Segir hann son sinn hafa búið um mánuð í Efstasundi og búinn að vera 2-3 vikur á Kópavogsbraut. 

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

Komið hefur fram í fyrri fréttum um Betra líf að Arnar rekur áfangaheimili í Efstasundi og Vatnagörðum, og þar áður í Fannborg. 

„Það þarf að stoppa þennan mann áður en hann drepur einhvern,“ segir Torfi. Segir hann Arnar hafa tilkynnt sér í dag í símtali að hann ætli að vísa syni Torfa út um mánaðamótin vegna þess að Torfi vakti athygli á aðstæðum í húsnæðinu. 

„Ég skil ekki hvernig Arnar nennir að standa í þessu að leigja virkum fíklum. En hann fór þó með reykskynjara og slökkvitæki í húsið og hengdi upp eftir að ég var búinn að hringja í hann,“ segir Torfi.

„Sonur minn læstist inn á klósetti fyrir tíu dögum, tveimur vikum, og eina leiðin fyrir hann út var að brjóta niður hurðina og hún liggur ennþá þarna. Þegar búið er að brjóta hurðina hlýtur að þurfa að laga hana. Hurðarhúnninn á herberginu hans dettur af, sem er lítið mál að laga. En hvað gerist ef kviknar í? Það er líka skelfilegur músagangur í húsinu líka og varla þverfótað fyrir þeim.“

Torfi segist vera búinn að hringja í alla aðila sem ættu að láta sig málið varða. „Af því þetta er íbúðarhúsnæði þá sagði hann mér hjá slökkviliðinu að þeir mættu ekki fara inn. Félagsþjónustan i Kópavogi sagðist ekkert geta gert, en gaf mér svo sem enga ástæðu. Byggingarfulltrúi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun segja þetta ekki koma sér við. Viljinn í kerfinu er enginn,“ segir Torfi.

Aðspurður um hvort Arnar reki Kópavogsbraut sem áfangaheimili svarar Torfi: „Ég veit það ekki. En hann hefur hingað til gefið sig út fyrir að reka áfangaheimili og þegar kviknaði í í Vatnagörðum þá talaði hann um að flytja sína skjólstæðinga annað. Og ef þú ert með áfangaheimili og kallar fólkið sem býr þar skjólstæðinga hvað þá? Ég veit ekki betur en þetta séu menn sem koma af áfangaheimilinu, og hvort að sé hægt að segja að ef þú komir þeim í annað húsnæði þá sé það ekki áfangaheimili, þetta er bara orðhengilsháttur.“

Í fjölmörgum athugasemdum við færslu Torfa á Facebook, þar sem hann birtir fjölmargar myndir af húsnæðinu á Kópavogsbraut, spyr fólk hvort það sé ekki mannanna sem búa í húsnæðinu að þrífa húsnæðið sjálfir. „Fæstir af þessum mönnum eru færir um að hugsa um sig sjálfir,“ segir Torfi við blaðamann. 

Ef sonur þinn er kominn á götuna um mánaðamótin hvað sérðu fyrir þér að sé næsta skref fyrir hann? „Þetta er fullorðinn maður, hann verður að redda sér. Ég vona að næsta skref sé að hann fari inn á geðdeild aftur, hann útskrifaði sig sjálfur þaðan, af því hann var kominn með herbergi á Betra líf, annars hefði hann kannski ekki útskrifað sig. Hann vill bara vera í neyslu. Hann hefur verið mörg ár í neyslu,“ segir Torfi og segir ömurlegt að sjá barnið sitt í þessari stöðu. „Það er alltaf jafn ömurlegt.“

Aðspurður segist Torfi vera í sambandi við son sinn, en reyna að hafa samskiptin eins lítil og hægt er vegna eigin heilsu. Segir hann son sinn ekki vilja aðstoð eins og er vegna neyslunnar. 

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

„Á þetta fólk bara að vera úti á götu og deyja þar?“

„Þetta er sorglegt mál,“ segir Arnar Gunnar Hjálmtýsson, eigandi Betra líf í samtali við DV. 

„Þetta eru einstaklingar sem geta ekki verið á áfangaheimili, þeir eru of veikir í það,“ segir segir Arnar og neitar því að hann reki húsnæðið að Kópavogsbraut sem áfangaheimili.

Arnar segir það ekki rétt sem Torfi heldur fram að leigutakarnir séu allir í neyslu og segir tvo þeirra stunda vinnu. „Það stendur til að rífa húsið, þessir menn eru ekki í fínu húsnæði og eigandinn leigir mér það til bráðabirgða. Hluti þessara manna var hjá mér í Vatnagörðum og þeir leituðu til mín og ég leigi þeim þarna frekar en að þeir frjósi úti í vetur. Þeir kjósa að vera þarna. Gistiskýlið er ekki skemmtilegur staður að vera á, það vill enginn vera þar. Svona er ástandið og ef það er einhver sem á að bera skömm af þessu þá eru það sveitarfélögin sem eiga lögum samkvæmt að sjá um þetta fólk. Ég er bara miskunnsami samverjinn að hjálpa þeim um húsnæði, ég get ekki gert meira. Torfi er með hugmyndir um að ég sé að hafa fé af þessum mönnum en sannleikurinn er sá að ég er að borga með þessu húsnæði í hverjum mánuði.“

Aðspurður um hvernig hann nenni hreinlega að standa í þessu, miðað við alla gagnrýni sem hann fær og mismunandi ásigkomulag einstaklinga sem hjá honum leigja, svarar Arnar: 

„Á þetta fólk bara að vera úti á götu og deyja þar?“

Hvað varðar óþrifnað í húsnæðinu að Kópavogsbraut segir Arnar það ekki vera hans að þrífa frekar en annarra leigusala.

„Þeir sem búa þarna eiga að þrífa húsið, ef þú leigir þér húsnæði út í bæ þá er það ekki leigusalinn sem á að þrífa fyrir þig. Þetta er eitthvað sem kerfið þarf að laga, þessir menn þurfa aðstoð, þeir eru ekki að eyða pening í klósettpappír, sápu eða uppþvottavél. Ég leigi þetta húsnæði af öðrum og þetta er kostnaður fyrir mig, þessir menn borga ekki alltaf leigu. Mér finnst þessi gagnrýni vera komin fram af mikilli vanþekkingu og einhverri illsku af hálfu Torfa í garð sonar hans. Síðan er hann að taka myndir þarna inni og dreifa á netinu, sem er ólöglegt. Ég er búin að tala við lögfræðing, sem segir þetta brot á friðhelgi einkalífs.“ 

Bauð Torfa að koma og þrífa

Arnar segist hafa boðið Torfa að mæta á staðinn ef hann vill og þrífa húsnæðið ef að leigutakar og íbúar hússins vilji það.  „Ég hef ekkert á móti því og örugglega ekki þeir heldur. 

Þetta eru einstaklingar sem eru að leigja þetta hús og það skilja það allir með greindarvísitölu hærri en skónúmer að þegar þú leigir þér húsnæði  þá er ekki leigusalinn að koma og þrífa hjá þér. Ég kaupi klósettpappír, sápu og uppþvottalög af því þeir eru ekki að eyða pening í það.“

Segir hann einn fyrri leigutaka hafa flutt út og skilið búslóðina sína eftir og hann sé að reyna að ná í hann að koma og sækja dótið sitt, samkvæmt lögum ber leigusala skylda að geyma dótið í sex mánuði. Aðspurður segist Arnar ekki vita hvort mennirnir fái húsaleigubætur greiddar en allir séu þeir með leigusamning. „Það fá allir leigusamning. Það stendur í honum að ef menn skilja eftir dótið sitt og sæki ekki innan sex mánaða þá gef ég það í Góða hirðinn eða Rauða krossinn.“

Aðspurður um hvort leigutakar geti læst herbergjum sínum segir Arnar að sonur Torfa hafi fengið herbergi þar sem fyrri leigutaki fjarlægði sílinderinn og þannig hafi verið vesen með hurðina til að byrja með. Telur hann að samkomulag milli leigutakanna að Kópavogsbraut sé gott. „Enginn er að kvarta. Þetta er tímabundið húsnæði og ég held að Torfi ætti að hafa meiri áhyggjur af hvert sonur hans fer eftir það, frekar en hvort sé drasl þarna.“

Mynd: Facebook
Mynd: Facebook

Bauð Arnari húsnæðið að fyrra bragði til skamms tíma

Eigandi hússins er Kópavogsbraut ehf., sem er í eigu Sigurjóns Gunnsteinssonar. Engum leigusamningi er þinglýst á húsnæðinu. Í samtali við DV segir Sigurjón að leigusamningur sé til staðar milli hans og Arnars.

„Ég heyrði í fréttunum að brunnið hefði hjá honum [Arnari] og þá hringdi ég í hann og sagði honum að ég væri með laust húsnæði sem væri ekki í fullkomnu ástandi sem ætti að vera betra fyrir menn en að lenda á götunni,“ segir Sigurjón og vísar þar til brunans í Vatnagörðum 17. febrúar. 

„Húsnæðið var ekki í svo slæmu ástandi, við Torfi vorum sammála um að fólkið sem býr þarna er í frekar slæmu ástandi. Eins og mér heyrist þá eru menn að fá minni hjálp en þeir ættu að fá.“

Sigurjón er búinn að fá heimild frá Kópavogsbæ til að rífa húsnæðið og hyggst byggja þar nýtt hús í vor. „Þetta [leigan til Arnars] er bara um óákveðinn tíma, þangað til ég fer í þessa framkvæmd. Ég tók skýrt fram að ég myndi ekki fara í neinar viðgerðir á húsnæðinu, þannig ef það er eitthvað sem er að þá þyrfti Arnar að kippa því í liðinn.“

Aðspurður segist Sigurjón ekkert hafa farið inn í húsnæðið síðan Arnar tók við því. „Ég sá bara myndirnar á Facebook sem Torfi tók. Ég veit að þeir Arnar hafa talað saman og voru að tala saman um að fara á staðinn og aðstoða eitthvað. Að þessu leyti er þetta mér ekki viðkomandi, mér skildist á Torfa að hann ætlaði að láta þá eftirlitsaðila vita, sem eiga að vita af þessu. Þetta er samþykkt íbúðarhúsnæði, þó sé búið að teikna annað á lóðinni.“