Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

„Erum í ákveðinni endurskoðun“

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra, hefur legið undir mikilli gagnrýni í kringum fyrirhugaða sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Vinnubrögð ráðherrans hafa verið gagnrýnd af kennarafélögum skólanna beggja og þeir eru ansi margir sem hafa lýst þeirri skoðun sinni að þeir sér mótfallnir sameiningunni, meðal annars þingmenn og fjöldi fyrirtækja.

Ásmundur var inntur eftir því að loknum ríkisstjórnarfundi hvort fyrirhuguð sameining skólanna á Akureyri hafi verið lögð til hliðar.

„Það er þannig eins og ég hef sagt áður þá mun skipta miklu máli að við fáum ákveðinn fjárhagslegan slaka inn í framhaldsskólakerfið á næstu árum. Við erum bara í samtali um það innan ráðuneytisins og í samtali við forystufólk ríkisstjórnarinnar í þessari viku um þau mál. Það mun hafa áhrif þannig að við erum í ákveðinni endurskoðun hvað þetta varðar,“ sagði Ásmundur Einar við mbl.is.

Stóraukinn fjöldi nemenda kemst ekki í starfsnám

Þú hefur mætt mikilli gagnrýni úr skólasamfélaginu fyrir norðan varðandi þessa fyrirhugaða sameiningu. Hverju svarar þú þessari gagnrýni?

„Það er fullkomlega eðlilegt þegar þú ferð af stað með breytingar á jafn rótgrónu kerfi eins og framhaldskólakerfið er að það séu um það skiptar skoðanir. Staðreyndin er hins vegar sú að það er mikilvægt að við tökum framhaldsskólakerfið til ákveðinnar endurskoðunar. Við erum að horfa upp á það að það er stóraukinn fjöldi nemenda sem ekki kemst að í starfsnám á hverju ári. Við þurfum að gjörbreyta áherslunum til að geta mætt því. Það eru biðlistar,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segist horfa upp á að það sé stóraukinn fjöldi nemenda af erlendum uppruna sem eru jafnvel fæddir og uppaldir á Íslandi sem fari síður í framhaldsskóla og útskrifist síður úr framhaldsskóla.

Aukið fjármagn og meiri slagkraft

„Allar stefnumótanir og annað hafa sagt okkur að við verðum að mæta þessum nemendum með auknum slagkrafti. Það sama á við um nemendur sem koma með fjölbreyttan bakgrunn og eru ekki að fara í framhaldskóla. Við þurfum að stórauka slagkraftinn til að mæta þessu vegna þess að það eru lögbundnar skyldur okkar. Það höfum við með tvennum hætti. Við erum búin að vinna ákveðna áætlun um það sem byggir á menntastefnunni til næstu ára.

Annað hvort þurfum við að mæta því með auknu fjármagni og slagkrafti inn í kerfið eða ákveðinni uppstokkun á framhaldsskólakerfinu. Ég held að við þurfum að gera hvoru tveggja. Jafnvel þótt við fáum inn aukið fjármagn þá þurfum við að fara inn í kerfið og virkja alla með til samtals um ákveðnar breytingar á kerfinu til þess að mæta þessu.“

Heimsóknirnar norður gríðarlega góðar

Á dögunum bárust af því fréttir að Karl Frímasson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, hafi sagt sig frá sameiningarvinnunni. Spurður út í ákvörðun skólameistarans segir Ásmundur Einar;

„Við höfum átt í mjög góðu samtali við núverandi skólameistara MA. Ég held að það séu allir meðvitaðir um mikilvægi þess að fara í ákveðna vinnu í framhaldsskólakerfinu. Heimsóknir mínar norður voru gríðarlega góðar, bæði í Menntaskólanum á Akureyri og líka í Verkmenntaskólanum. Ég hef ekki áhyggjur af því að skólameistarar allt í kringum landið skynji ekki þessar breytingar sem eru að verða á samfélaginu. Þær hafa gerst hratt á síðustu árum og öll tölfræði sýnir okkur að þær eigi eftir að gerast enn hraðar á næstu árum. 

Markmið mitt hefur aldrei verið sameining sameininganna vegna heldur að ná þeim markmiðum sem lúta að aukinni þjónustu við nemendur og aukinni fjölbreytni. Ef við getum fundið aðrar leiðir til þess en sameiningar þá er ég miklu meira tilbúinn í það og hef sagt það alls staðar opinberlega og líka við forystu skólasamfélagsins á Akureyri og allt í kringum landið,“ segir Ásmundur Einar.

mbl.is