Iceland
This article was added by the user . TheWorldNews is not responsible for the content of the platform.

Dauðalisti sænsku lögreglunnar

Lögregluyfirvöld í Stokkhólmi og nágrenni hafa komið sér upp lista yfir 150 heimilisföng þar sem hætta er á að skot- eða sprengjuárásir dynji yfir fyrirvaralaust. Árásirnar síðustu vikur hafa hvort tveggja beinst rakleiðis að þeim sem glæpagengin telja sig eiga sökótt við eða að ættingjum þeirra. Í fleiri en einu tilfelli hafa algjörlega óviðkomandi meiðst eða látið lífið.

„Það er ómögulegt að vera á öllum þessum stöðum samtímis,“ segir Catrine Kimerius Wikström, lögreglustjóri í suðurumdæmi Stokkhólmslögreglunnar, við sænska ríkisútvarpið SVT, „við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vera þar sem hættan er mest og ná sambandi við þá sem spjótin beinast að.“

Eftirlit samhliða öðrum verkefnum

Á þeim 150 stöðum sem er að finna á lista lögreglunnar búa í sumum tilfellum klíkufélagarnir sjálfir sem eru í hættu en einnig ættingjar þeirra og vinir en þar er jafnframt að finna fyrirtæki sem tengjast þeim.

„Þetta eftirlit [með heimilisföngunum] framkvæmir almenna lögreglan samhliða öllum öðrum verkefnum sem hún sinnir. Eins og mönnunin er núna er algjörlega útilokað að fylgjast með þessu öllu,“ segir ónafngreindur heimildarmaður í lögreglunni við SVT.

Wikström lögreglustjóri vill ekki tjá sig um hve mörgum heimilisföngum lögreglan fylgist með. „Þegar við skoðum hve margir tilheyra þessum gengjum og lítum svo á ættingja hvers og eins áttum við okkur á því hve stór hópur það er sem þarna er undir,“ segir hún.

Sænska ríkislögreglustjóraembættið hélt í morgun blaðamannafund um ástandið í landinu og lét Anders Thornberg ríkislögreglustjóri þau orð falla að ofbeldisalda gengi yfir landið þar sem saklaust fólk yrði fyrir líkamstjóni og týndi jafnvel lífinu. „Hér hefur ekki verið farið yfir ein mörk heldur mörg,“ sagði Thornberg en dauðsföll af völdum ofbeldis hafa ekki verið jafn mörg í fjögur ár í einum mánuði og nú í september.

SVT

Aftonbladet

mbl.is